Fyrsti leikur meistaraflokks karla á laugardag – frítt inn!

Hilmar Trausti

Fyrsti leikur Hauka í 1. deildinni í sumar verður gegn Tindastóli á Ásvöllum á laugardaginn kl. 14:00 en ókeypis verður á Schenker-völlinn í boði Rio Tinto Alcan.

Hilmar Trausti Arnarson, fyrirliði liðsins, segir að sumarið leggist mjög vel í hann enda hafi hópurinn æft mjög vel í vetur.  ,,Allir leikmenn eru heilir og í topp formi, fyrir utan Gumma Sævars sem meiddist á æfingu eftir að við komum heim frá Spáni en hann vonandi allur að koma til.  Annars höfum við verið frekar heppnir með meiðsli í allan vetur enda búnir að losa okkur við mestu væludúkkurnar og einungis harðjaxlar í hópnum í dag. Við erum með gott lið og ef við spilum okkar bolta þá hef ég engar áhyggjur af gengi liðsins. Það eru mörg góð lið í þessari deild og þetta verður stríð í hverjum einasta leik.“

Hann segir að leikurinn gegn Tindastóli verði erfiður eins og allir leikir í þessari deild.  ,,Það er klárt að það verður ekkert vanmat of okkar hálfu, þeir eru að koma upp um deild, hafa engu að tapa og koma eflaust klárir til leiks. Það er mikilvægt að byrja mótið vel og gefa strax til kynna að við ætlum okkur stór hluti í sumar.“

Spurður um stemmninguna í hópnum þá segir Hilmar að það hafi aldrei vantað upp á hana í Haukum.  ,,Svo vil ég hvetja okkar stuðningsmenn til að fjölmenna á okkar leiki í sumar þar sem það gefur okkur leikmönnunum aukinn kraft að sjá stúkuna fulla af Haukafólki.  Ég vil því biðja alla alvöru Haukamenn að fjölmenna á leikina í sumar og gera Schenker-völlinn að óvinnandi vígi. Við leikmenn komum til með að gera okkar besta til þess að skemmta ykkur í sumar og sendum ykkur heim með bros á vör.“