Í kvöld hófust undanúrslit í Olísdeild karla og fengu okkar menn lið FH í heimsókn. Frá upphafi leiks vantaði stemmningu í Haukaliðið á meðan flest virtist ganga upp hjá andstæðingunum. Hálfleikstölur voru 12 – 16 en í síðari hálfleik leit út fyrir að Haukar væru að komast inn í leikinn en á 38. mínútu náðu þeir að minnka muninn í 17 – 19 en nær komust okkar menn aldrei. Á síðustu mínútunum var aðeins spurning hve stór sigur gestanna yrði en lokatölur voru 25 – 32.
Það sem var til fyrirmyndar í þessum leik var stemmningin á pöllunum en hún náði því miður ekki að skila okkar mönnum sigri í þetta skiptið. Það er aftur á móti engin ástæða til að hengja haus enda okkar strákar deildarbikarmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar. Þetta var fyrstu leikurinn í þessari rimmu en það þarf að vinna 3 leiki til að komast í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn. Eins og allir vita þá býr miklu meira í okkar liði en þeir sýndu í kvöld, þeir vita það best sjálfir, og munu vafalítið mæta dýrvitlausir í Kaplakrika í leik II á fimmtudaginn kl. 19:45.
Mörk Hauka: Tjörvi Þorgeirsson 5, Sigurbergur Sveinsson 5/2, Jón Þorbjörn Jóhannsson 4, Adam Haukur Baumruk 3, Árni Steinn Steinþórsson 3, Þórður Rafn Guðmundsson 2, Jónatan Ingi Jónsson 1, Einar Pétur Pétursson 1, Elías Már Halldórsson 1.
Markvarsla: Einar Ólafur Vilmundarson 8 (31%), Giedrius Morkunas 5/1 (26%).
Nú mætum við öll í Kaplakrika á fimmtudaginn og styðjum okkar menn til sigurs.
Áfram Haukar!