Það var sannkallaður stórleikur í gær, fimmtudag, í Schenkerhöll okkar Haukamanna þegar meistaraflokkur karla í handbolta keppti við sveina Ólafs Stefánssonar í Val. Eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna í Vodafonehöllinni voru Haukastrákarnir staðráðnir í að bæta upp fyrir það tap.
Haukarnir byrjuðu betur og skoruðu fyrstu 3 mörk leiksins en þá vöknuðu Valsmenn og skoruðu næstu 3 og jöfnuðu leikinn. Næstu mínúturnar skiptust liðinu á að skora en í stöðunni 9 – 8 fyrir Val tóku þeir kipp og skoruðu 5 mörk á móti einu marki Hauka og voru því komnir 14 – 9 yfir og héldu því forskoti út hálfleikinn og voru yfir að honum loknum 16 – 12. Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði eða með því að Valsmenn voru mun sterkari og þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður þá voru þeir komnir 6 mörkum yfir í stöðunni 21 – 15. Þá brá Patrekur þjálfari Hauka á það ráð að fara í framliggjandi 3 – 2 – 1 vörn og það hægði heldur betur á markaskorun gestanna og uppskar það 9 – 2 kafla hjá Haukum og Haukarnir voru allt í einu komnir yfir, 24 – 23, þegar tæpar 10 mínútur lifðu leiks.
Síðustu mínútur leiksins voru spennuþrungnar en þegar rúm ein mínúta lifði leiks komust Valsmenn 2 mörkum yfir en strax í næstu sókn fengu Haukar vítakast sem Sigurbergur skoraði úr og staðan orðin 27 – 26 Val í vil. Í stað þess að taka því rólega í næstu sókn þá æða Valsmenn upp og missa boltann og Haukar fá því síðustu sóknina í leiknum sem endaði með því að Haukar fengu vítakast um það leyti sem lokaflautið gall og á vítalínuna fór Sigurbergur sem var ískaldur og jafnaði leikinn og þar við sat. Þá má því með sanni segja að liðin hafi gert stórmeistarajafntefli 27 – 27.
Haukaliðið lék á köflum mjög vel en þess á milli gerðu strákarnir sig seka um að spila og stuttar sóknir og virkuðu stundum dálítið pirraðir. Það verður að segjast eins og er að úr því sem komið var var jafntefli mjög góðu niðurstaða úr þessum leik.
Markahæstur Haukamanna var Árni Steinn með 7 mörk og næstur honum var Sigurbergur með 6 mörk þar af 3 úr vítum. Tjörvi var öflugur á köflum og skoraði glæsileg mörk en datt þess á milli niður, eins og fleiri í liðinu. Markvarslan hefur oft verið betri en Giedrius stóð í marki Hauka og var með 9 bolta varða.
Næsti leikur Hauka er laugardaginn 23. nóvember í Schenkerhöllinni kl. 13:30 gegn ÍBV en þjálfari þeirra er fyrrverandi fyrirliði Hauka, Arnar Pétursson, og því um að gera fyrir Haukafólk að mæta og styðja Hauka til sigurs.
Áfram Haukar!