Í hádeginu í dag var tilkynnt hvaða leikmenn eru bestu leikmenn umferða 8 til 14 í N1 deildum karla og kvenna auk þess sem lið umferðanna voru tilkynnt. Haukamenn fengu flest verðlaun allra félaga en samtals urðu verðlaunin níu til Haukamanna, Stjarnan og Valur fengu þrenn verðlaun, FH og Fram tvenn og HK ein verðlaun. Bestu leikmenn umferðanna bæði í karla og kvenna flokki eru í liðum Hauka en það eru þau Ramune Pekarskyte og Freyr Brynjarsson. Aron Kristjánsson var einnig valinn þjálfari umferðanna.
Í karlaflokki fengu Haukamenn fimm verðlaun en auk þess að Freyr og Aron voru valdir bestir þá voru Freyr, Birkir Ívar Guðmundsson og Sigurbergur Sveinsson í liði umferðanna. Aðrir í liði umferðanna eru þeir Arnór Gunnarsson, Val, Framararnir Rúnar Kárason og Haraldur Þorvarðarson auk Valdimars Þórssonar, HK. Bestu dómarar umferðanna voru þeir Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.
Í kvennaflokki voru verðlaun Haukakvenna fjögur. Ramune var eins og áður segir valin best auk þess sem hún var í liði umferðanna. Aðrar Haukakonur í liði umferðanna eru þær Nína Björk Arnfinnsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir. Auk Haukakvennana voru Stjörnukonurnar Florentia Staciu og Alina Petrache, Valskonan Dagný Skúladóttir og FH-ingurinn Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir í liði ársins. Besti þjálfarinn var kosinn Atli Hilmarsson, þjálfari Stjörnunnar og besta umgjörðin var hjá Valsmönnum.