Haukar unnu frábæran 3-1 sigur á Fjarðabyggð í 16. umferð 1. deildar karla á Ásvöllum í gærkveldi. Björgvin Stefánsson skoraði þrennu í leiknum og er nú annar markhæsti leikmaður fyrstu deildar með 13 mörk, einu marki á eftir markahæsta leikmanni deildarinnar. Björgvin var að sjálfsögðu valinn maður leiksins ásamt Will Dieterich, markverði, sem varði nokkrum sinnum frábærlega í stöðunni 1-0. Tilkynnt var um valið í Haukum í horni eftir leikinn.
Okkar strákar sýndu svo sannarlega úr hverju þeir eru gerðir eftir tap í síðustu umferð og léku í kvöld einn sinn besta leik í sumar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Flott spil og virkilega gaman að horfa á liðið sem uppskar mark á 39 mínútu.
Leikmenn Fjarðabyggðar mættu af miklum krafti í seinni hálfleik og fengu færi til jafna en Will varði nokkrum sinnum frábærlega eins og áður segir. Okkar strákar stóðust pressuna og vel það. Komust betur inn í leikinn er á leið seinni hálfleikinn og á 84 mínútu fiskaði Björgvin viti sem hann skoraði sjálfur úr.
Fjarðabyggð minnkaði muninn í 2-1 í uppbótartíma en Björgvin skoraði sitt þriðja mark mínútu síðar.
Frábær Hauka-sigur staðreynd og enn og aftur frábær liðsheild. Allir leikmenn Hauka spiluðu vel í kvöld og það er svo sannarlega gaman að styðja við bakið á okkar unga og efnilega liði.
Áfram Haukar!