Í gær réðust úrslitin í Olísdeild karla þegar leikinn var oddaleikur í viðureign Hauka og ÍBV í Schenkerhöllinni að Ásvöllum. Ég er efins um að önnur eins stemmning hafi verið á deildarleik eða leik í úrslitakeppni í handbolta á Íslandi. Vel á 3ja þúsund manns mættu til að styðja við bakið á sínu liði og nú voru allir virkir og því magnað andrúmsloft í salnum. Framan af fyrri hálfleik var leikurinn jafn en eftir 16 mínútna leik höfðu Eyjamenn náð 4ja marka forystu, 7 – 11. Haukamenn náðu að vinna þessu forystu upp og Árni Steinn jafnaði leikinn 15 – 15 þegar 3 sekúndur voru eftir af hálfleiknum. Haukar byrjuðu betur í síðari hálfeik og leiddu leikinn framan af. Mest náðu okkar menn 4ja marka forystu á 42. mínútu leiksins, 22 – 18. En eins og marg oft hefur verið talað um þá hætta Eyjamenn aldrei og þeir náðu að koma til baka og jafna leikinn á 47. mínútu leiksins, 23 – 23. Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að skora og spennan var svakaleg. Sigurbergur jafnaði leikinn 59. mínútu leiksins, 28 – 28, og Eyjamenn fóru í sókn. Besti maður þeirra, Agnar Smári (13 mörk), tók skotið og Giedrius varði vel en hið ótrúlega gerðist að boltinn barst beint til Agnars Smára og hann skoraði, 28 – 29. Okkar menn náðu svo ekki að nýta þær ca. 15 sekúndur sem lifðu leiks. Þetta var leikur sem sannarlega gat dottið hvorum megin sem var en hann datt ekki okkar megin í þetta skiptið. Eyjamenn unnu þar með sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í mfl. karla og við óskum þeim til hamingju með það.
Haukaliðið datt inn og úr gír í þessum leik en einn leikmaður lék þó allra best en það var stórskyttan okkar Sigurbergur Sveinsson sem skoraði 12/3 mörk úr 14 skotum, þvílíkur leikur hjá þessum magnaða leikmanni. Jón Þorbjörn, Einar Pétur og Adam Haukur voru líka með flotta nýtingu, Jón og Adam með 100% en Einar Pétur með 5 úr 6 skotum. Giedrius átti enn einn stórleikinn í markinu þrátt fyrir að ganga ekki vel í byrjun þá hrökk hann í gang og skilaði sannarlega sínu og endaði með 20 bolta.
Þrátt fyrir þetta tap getum við sannarlega verið stolt af okkar liði. Þeir unnu deildina, deildarbikarinn og bikarinn. Frábært lið og eiga Patrekur og Óskar hrós skilið enda voru væntingar vetrarins frekar hófstilltar en liðið missti 7 leikmenn frá því á síðasta tímabili og fékk einn til baka úr láni.
Mörk Hauka: Sigurbergur 12/3, Jón Þorbjörn 5, Einar Pétur 5, Adam Haukur 3, Tjörvi 1, Brynjólfur 1, Árni Steinn 1.
Markvarsla: Giedrius 20 (49%), Einar Ólafur 1 (11%).
Haukar eru bestir!