Frábær sigur í gær, næsta stríð á sunnudag

Haukarnir fengu frábæran stuðning í gær - Mynd: Jón Páll VignissonHaukar unnu heldur betur sætan og mikilvægan sigur á ÍR-ingum í þriðja leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla í gærkvöld. Lokatölur urðu 25-24 í rafmögnuðum spennu leik.

Okkar menn voru sterkari framan af og leiddu með 1-2 mörkum lengst af fyrri hálfleik en í hálfleik var jafnt 12-12. Gestirnir úr Breiðholtinu byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og komust meðal annars í 19-14 og í stöðunni 23-19, þegar rúmar 10 mínútur voru eftir, virtist lítið í gangi hjá Haukum.

En allt í einu hrökk Haukaliðið í gang og ÍR-ingar skoruðu ekki nema eitt mark það sem eftir lifði leiks gegn sex mörkum frá Haukaliðinu. Að vonum fögnuðu okkar drengir gríðarlega þessum mikla karakter sigri en að sama skapi voru ekki allir ÍR-ingar sáttir í leikslok. Það verður því eflaust hart barist í Austurbergi á sunnudag. Við bendum fólki á að frekari umfjöllun um leikinn í gær má finna á öllum helstu fréttamiðlum landsins.

Best er að endurtaka það sem áður var sagt, á sunnudag kl.17.00 ætlar allt Haukafólk að vera staðsett í Austurbergi að hvetja strákana til sigurs í leiknum og þar með einvíginu, staðan er nú 2-1 í leikjum talið Haukum í vil en þrjá sigra þarf til að komast í sjálfa rimmuna um Íslandsmeistartitlilinn.