Formannsspjall

Hugleiðingar formanns:

Handknattleikur hefur oft verið nefndur þjóðaríþrótt okkar Íslendinga og hafa menn verið stóryrtir á sigurstundum um nauðsyn stuðnings hins opinbera og fyrirtækja við íþróttina. Nú er það svo að við Haukamenn höfum lagt hart að okkur undanfarin ár með þátttöku í Evrópukeppni og Meistaradeild Evrópu og náð þar verulega góðum árangri miðað við þær aðstæður sem við búum við hér á landi í fámenninu. Öflun fjár með auglýsingasamningum við fyrirtæki hefur reynst okkur þyngri með hverju ári og virðist sem öll sú velgengni og “útrás” íslenskra fyrirtækja hafi haft þau áhrif á marga stjórnendur þeirra að þeir hafa misst sjónar á því sem þeim stendur næst þ.e. starfi hinna ýmsu íþróttafélaga sem rekin eru af fámennum hópi sjálfboðaliða. Þó að ég ætli ekki að fullyrða hvað stendur einstaklingum næst, heldur það að þetta eru þó þeirra framtíðar viðskiptavinir og neytendur sem eiga í hlut.

Mér er það ljóst eftir að hafa starfað að þessum málum í 15 ár samfleitt að aðal samkeppnisaðili okkar í dag eru fjölmiðlafyrirtæki og þá sérstaklega ljósvakamiðlarnir. Við eigum ekki einungis í harðri samkeppni við þá um áhorfendur heldur einnig um fjármagn sem fyrirtæki setja í íþróttir og þá á ég við þær stóru upphæðir sem fara til “kostunar” á erlendu íþróttaefni.
Það er ótrúlegt að sjá hve auðvelt það virðist vera fyrir fjölmiðla að fá stórfyrirtæki landsins til að kosta sýningar á mismerkilegu erlendu efni, á meðan viðburðir í íslensku íþróttalífi verða útundan. Það er alveg ljóst að ef ekki verður stefnubreyting á hjá fjölmiðlum og öflugum fyrirtækjum og stóraukið verði framboð af íslensku efni, munu allar íþróttagreinar aðrar en golf og knattspyrna væntanlega, sem búa við mjög sérstakar aðstæður, lognast útaf í þeirri mynd sem ásættanlegt er.

Miðað við þær upphæðir sem fara í “kostun” á erlendu efni þá er það ljóst að brot af því fjármagni til íþrótafélaganna mun stórbæta alla afkomu og tryggja framtíð fjölbreytts íþróttastarfs á Íslandi.

Í dag eigum við Íslendingar mjög gott landslið í handknattleik karla og er það sjálfsögð krafa okkar allra, en við skulum ekki gleyma því að nær allir þeir leikmenn sem skipa okkar landslið, leika með erlendum liðum, og af hverju? Jú þeir hafa verið aldir upp hjá metnaðarfullum félagsliðum á Íslandi sem hafa lagt sig fram við að skapa þeim sem bestar aðstæður til æfinga og keppni og komið þeim á framfæri erlendis með þátttöku í Evrópukeppni og öðrum sterkum mótum. Ef hins vegar fótunum verður kippt undan félögunum fjárhagslega, þá er nokkuð ljóst að íslenskir leikmenn verða ekki í fremstu röð erlendis og landslið okkar hvorki fugl né fiskur.

Er ég hræddur um að störfum í stétt íþróttafréttamanna verð stefnt í hættu og íþróttaefni fjölmiðla verður þá væntanleg einungis textað erlent efni. Ef til vill er það sem koma skal….. vilja menn það.

Ég vona að þessi hugleiðing verði ekki til þess að menn móðgist, heldur líti sér nær og átti sig á þeirri ofursamkeppni sem ríkir á markaðnum og bitnar stórlega á íþróttahreyfingunni í landinu.

Þorgeir Haraldsson
Formaður handknattleiksdeildar Hauka