Formannsskipti hjá Handknattleiksdeild Hauka

Á aðalfundi Handknattleiksdeildar Hauka sem haldinn var 21. febrúar s.l. var Þorkell Magnússon kjörinn nýr formaður deildarinnar. Þorgeir Haraldsson sem gengt hefur stöðu formanns um árabil gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þorgeir á keppnis og stjórnunarferil sem spannar í rúmlega hálfa öld á vettvangi deildarinnar og Knattspyrnufélagsins Hauka. Hann var leikmaður í meistaraflokki, þjálfari bæði meistarflokka karla og kvenna, stjórnarmaður og formaður handknattleiksdeildarinnar og Knattspyrnufélagsins Hauka auk nefndarstarfa á vegum Hauka og víðar. Þorgeiri var á aðalfundinum þökkuð sérlega gifturík störf á vettvangi Handknattleiksdeildar Hauka. Þótt víða væri leitað, má fullyrða að enginn annar formaður handknattleiksdeildar hafi á þessri öld, átt þátt í öðrum eins fjölda meistaratitla líkt og meistaraflokkar Hauka unnu til, svo og fjöldi meistaratitla í yngri flokkum.

Viðtakandi formaður, Þorkell Magnússon, verkfræðingur er Haukafólki vel kunnugur. Þorkell átti glæsilegan feril sem leikmaður meistarflokks karla í Haukum, hefur starfað við þjálfun yngri flokka hjá deildinni auk setu í stjórn handknattleiksdeildarinnar á síðari árum. Væntum við Haukafólk mikils af Þorkeli og nýkjörinni stjórn Handknattleiksdeildar Hauka á komandi árum.