Flottur sigur Hauka í Grafarvogi

Í kvöld spiluðu stelpurnar við Fjölni í Grafarvogi í 7. umferð Iceland Express deildarinnar, en þetta var  jafnframt síðasti leikurinn í fyrri umferðinni. Mikil spenna var í lokin en Haukar sigruðu með einu stigi 80-81 og eru því komnar með 8 eins og Njarðvík og KR og sitja sem stendur í 5. sæti deildarinnar.

Haukastelpur byrjuðu mun betur og höfðu 11 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann. Annar leikhluti var mjög jafn og höfðu Haukar ennþá 11 stiga forskot í hálfleik, 31-42.

 

Fjölnisstelpur komu ákveðnar í seinni  hálfleikinn og náðu að minnka muninn niður í 3 stig rétt undir lok þriðja leikhlutans. Mikil spenna var í fjórða leikhlutanum en Haukar voru þó yfir allan tímann og sigruðu að lokum með einu stigi eftir að Natasha Harris, nýr leikmaður Fjölnis, setti niður þrist um leið og flautað var til leiksloka.

Tölfræði

Haukar: Katie Snodgrass 27 stig /7 fráköst /7 stöðsendingar, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 15 stig /10 fráköst, Íris Sverrisdóttir og María Lind Sigurðardóttir 10 stig hvor