Flottur sigur á Val – Tvíhöfði á sunnudaginn

Haukamenn fagna eftir að hafa komist áfram í Evrópukeppinni. Mynd: Eva Björk

Haukamenn fagna eftir að hafa komist áfram í Evrópukeppinni. Mynd: Eva Björk

Meistaflokkur karla í handbolta lék í gær gegn Valsmönnum í 3. umferð Olís deildar karla en leikið var í Vodafonehöllinni heimavelli Vals. Fyrir leikinn voru Valsmenn búnir að vinna báða sína leiki á erfiðum útivöllum gegn ÍBV og Akureyri. Haukar voru aðeins búnir að leika einn leik en leik þeirra í 2. umferð var frestað vegna þátttöku Hauka í EHF bikarnum en í eina leik sínum í deildinni unnu Haukamenn nýliða Víkings á útivelli og voru bæði lið því taplaus.

Haukamenn byrjuðu leikinn vel og virtist sem að Evrópuleikirnir tveir um síðustu helgi sætu ekkert í Haukastrákunum því þeir komust strax í 3 – 1 og svo seinna í 9 – 5 en þá tóku Valsmenn við sér og jöfnuðu í 9 – 9 og voru liðin svo jöfn á öllum tölum fram að hálfleik en þá var staðan 13 – 12 Haukum í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri eða með því að Haukar voru sterkari aðilinn en eftir um 10 mínútna leik voru Haukar komnir með 4 marka forskot þrátt fyrri að hafa verið einum færri í tvígang á þeim kafla. Í þetta skiptið slökuðu Haukamenn ekki á eftir að hafa komist yfir og silgdu öruggum og flottum 7 marka sigri í höfn 26 – 19.

Flottur sigur staðreynd á sterku Valsliði einnig í ljósi þess að Adam Haukur var ekki með vegna meiðsla en þá tóku aðrir bara við keflinu og gerðu það vel. Eins og svo oft áður hjá Haukum var það frábær vörn og markvarsla auk auðveldra marka úr hraðaupphlaupum sem skópu sigurinn í þetta skiptið. Atkvæðamestur Haukamanna í þessum leik var Leonharð Þorgeir með 7 mörk en á eftir honum komu Elías Már og Einar Pétur með 5 mörk hvor. Í markinu varði Giedrius 49% þeirra skota sem komu á markið og átti flottan leik, Grétar kom svo inn á síðustu mínúturnar og varði 2 af þeim 3 skotum sem á hann komu.

Það er stutt í næsta leik en næsti leikur er strax á sunnudaginn er frestaði leikurinn gegn ÍBV úr 2. umferð verðu leikinn og þá er loksins komið af heimaleik en leikið verður í Schenkerhölinni á sunnudaginn kl. 16:00 og svo strax í kjölfarið leika Haukastelpurnar sinn annan leik í Olís deild kvenna er þær mæta Fjölni og er því tvöföld ástæða fyrir Haukafólk að kíkja á völlinn á sunnudaginn. Áfram Haukar!