Meistaraflokkur karla í handbolta vann flottan sigur á toppliði Vals á föstudaginn í Olís deildinni. Eftir jafnan leik sigu Haukar frammúr í lokin og unnu að lokum sigur 25 – 22. Haukar geta þakkað Janusi Daða vel fyrir sigurinn því drengurinn átti sannkallaðan stórleik og skoraði hann 13 af þessum 25 mörkum Hauka einnig var Giedrius flottur í markinu.
Það má þó ekki gleyma að minnast á það að í þessum leik spilaði ungur Haukastrákur sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið en það er hinn 16 ára gamli Kristinn Pétursson en þess má geta að hann er sonur Péturs Vilberg Guðnasonar fyrrum leikmanns og fyrirliða Haukaliðsins einnig má minnast á það að systur hans Gunnhildur og Vilborg hafa báðar spilað fyrir meistaraflokk kvenna hjá Haukum og spilar Vilborg með liðinu núna.
Næsti leikur liðsins er strax á morgun, mánudag, þegar Akureyri kemur í heimsókn í Schenkerhöllina og hefst leikurinn kl. 19:00. Einnig má ekki gleyma að minna allt Haukafólk á að taka sunnudaginn 22. nóvember frá því þá spila strákarnir við franska stórliðið Saint Raphael Handball í EHF bikarnum en leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni og hefst hann kl. 18.00 og eiga Haukastrákarnir svo sannarlega skilið stuðning fólks í þeim leik. Áfram Haukar!