Flottur sigur í fyrsta leik

Haukar unnu góðan og mikilvægan sigur á liði Vals í opnunar leik þeirra í Domino‘s deildinni í gærkvöld, 85-70. Leikur Hauka var fínn á köflum og í tvígang náði liðið að keyra muninn upp yfir 10 stig. Valsmenn náðu að minnka muninn í bæði skiptin og létu Hauka hafa verulega fyrir hlutunum.

Haukar náðu fyrst upp 10 stiga forskoti í upphafi þriðja leikhluta en Valsmenn jöfnuðu um hann hann miðjan. Haukar fóru þó með fimm stiga forskot inn í hálfleikinn 44-39 og náðu að keyra muninn aftur upp í 16 stig undir lok þriðja leikhluta. Aftur kom fínn kafli frá Valsmönnum þar sem þeir minnkuðu muninn niður í þrjú stig en þá tóku Haukar öll völd á vellinum.

Haukar tryggðu sér 15 stiga sigur, 85-70, með þriggja stiga skoti frá Sigurði Þór Einarssyni alveg í lok leiks og fyrstu stig Hauka í hús.

Terrence Watson, Davíð Páll Hermannsson og Emil Barja voru öflugir fyrir Hauka og Svavar Páll Pálsson átti frábæra innkomu af bekknum sér í lagi í fjórða leikhluta.

Terrence skoraði 25 stig, tók 17 fráköst og varði 6 skot, Davíð setti niður 22 stig og reif ein 8 fráköst og Emil Barja náði fyrstu þrennu tímabilsins þegar hann skoraði 11 stig, tók 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Fyrir utan það átti hann 5 stolna bolta.

Helgi Björn Einarsson var fjarri góðu gamni þar sem hann meiddist á æfingu fyrr í mánuðnum og óvíst er hvenær hann snýr aftur á dansgólfið.

Tengdar fréttir:
Haukar unnu nýliðaslaginn
Myndasafn: Haukar höfðu betur í nýliðaslagnum
Leikstjórnandi Hauka með fyrstu þrennu vetrarins
Sagt eftir leik á Ásvöllum
Helgi Björn frá í einhvern tíma
Tölfræði leiksins