Haukar skelltu sér í toppsætið í Iceland Express-deild karla í kvöld með flottum sigri á Tindastóli 83-64. Deila þeir efsta sætinu með Grindavík og Snæfell en tróna á toppnum þar sem liðið er með besta stigahlutfallið..
Fjöldi fólks lagði leið sína á Ásvelli en félagið var að leika sinn fyrsta úrvalsdeildarleik í þrjú ár og eftirvæntingin því mikil. Hamborgarar voru á grillinu fyrir leik sem féll vel í kramið hjá Haukamönnum en hamborgararnir kláruðust og ljóst að grillarar félagsins vita hvað þeir eru að gera.
Það voru Haukar sem hófu leikinn af krafti í kvöld og komust snemma í 8-2. Tindastólsmenn voru ekkert á því að gefast upp og unnu sig inn í leikinn á ný og jöfnuðu 12-12 og komust yfir 12-14. Haukar leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta 21-20.
Í upphafi annars leikhluta hélt barningurinn áfram en Haukar náðu þó fljótlega að slíta sig frá gestunum og juku muninn jafnt og þétt. Staðan í hálfleik var 43-33 Haukum í vil.
Haukar voru sterkari en gestirnir í seinni hálfleik gáfust aldrei upp og sýndu flotta takta. Haukaliðið var þó of sterkt í kvöld og gaf þeim aldrei almennilegt tækifæri til að komast aftur inn í leikinn.
Haukar unnu sannfærandi sigur 83-64.
Stigahæstur hjá Haukum var Semaj Inge með 24 stig en hann var flottur í kvöld og átti nokkrar flottar troðslur. Gerald Robinson var með 18 stig og heil 22 fráköst. Örn Sigurðarson var með 15 stig og Sævar Haraldsson setti 14 stig og gaf 11 stoðsendingar.
Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Myndasafn úr leiknum á Karfan.is
Umfjöllun og viðtal við Pétur á Sport.is