Flottur árangur hjá yngri flokkum Hauka

3. flokkur karla

Það var mikið um að vera hjá ungmennum okkar í gær þegar úrslitaleikir yngri flokka fóru fram að Varmá en Haukar áttu þrjá flokka í úrslitum.

4. flokkur karla eldri riðu á vaðið þegar þeir mættu Fram í hörkuleik þar sem Haukastrákarnir voru með frumkvæðið nánast allan leikinn en Fram var þó alltaf skammt undan. Þegar komið var á síðustu mínútu leiksins var staðan jöfn 21 -21. Framarar náðu svo með síðasta skoti leiksins að komast yfir í fyrsta sinn og unnu leikinn 22 – 21.

Mörk Hauka: Birkir Steinn Steinsson 10, Gísli Rúnar Jóhannsson 6, Pétur Már Jónasson 3, Stefán Karolis Stefánsson 1, Hilmir Helgason 1. Í markinu varði Daði Bergmann Gunnarson mjög vel.

3. flokkur kvenna sem lék í 2. deild í allan vetur voru næstar á dagskrá þar sem þær mættu ÍBV. Úr varð annar hörkuleikur þar sem ÍBV var með frumkvæðið allan leikinn og um miðja seinni hálfleik voru Eyjastelpur komnar 7 mörkum yfir. Haukastelpur lögðu þó ekki árar í bát og minnkuðu muninn jafn og þétt en komust þó ekki alla leið því leikurinn endaði með sigri ÍBV 32 – 29.

3. flokkur kvenna

Mörk Hauka: Rósa Kristín Kemp 12, Elína Klara Þorkelsdóttir 4, Emilía Katrín Matthíasdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 3, Ester Amíra Ægisdóttir 2. Í markinu stóð Agnes Ósk Viðarsdóttir sig vel. Eftir leikinn var Rósa síðan valin besti leikmaður leiksins enda átti hún stórleik.

Í síðasta leik dagsins mættu strákarnir í 3. flokki Val í leik sem átti eftir að vera gjörsamlega magnaður. Jafnt var á öllum tölum leiksins þar sem að hvorugt liðið gaf neitt eftir og eftir venjulegan leiktíma endaði leikurinn 27 – 27. Þá var gripið til framlengingar þar sem áfram var jafnt á öllum tölum og staðan eftir framlengingu var 31 – 31. Þá var gripið til vítakast keppni þar sem bæði lið tóku 5 víti og eftir þessi 5 víti var staðan jöfn 35 – 35. Úrslitin myndu þá ráðast í bráðabana þar sem Haukar skoruðu úr fyrsta víti sínu en Valur klikkaði úr sínu og Haukar því Íslandsmeistarar eftir 36 – 35 sigur.

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 18, Kristófer Máni Jónasson 4, Jakob Aronsson 4, Róbert Snær Örvarsson 3, Alex Máni Júlíusson 2, Össur Haraldsson 2, Magnús Gunnar Karlsson 1, Þorfinnur Máni Björnsson 1, Atli Steinn Arnarson 1. Í marki Hauka mestan leikinn stóð Magnús Gunnar Karlsson en hann varði síðan 2 víti í vítakastkeppninni. Guðmundur Bragi átti stórleik og var í lok hans valinn besti leikmaður leiksins.

Haukar óska krökkunum innilega til hamingju með sinn árangur og þakka stuðinginn við þau á pöllunum. ÁFRAM HAUKAR!

4. flokkur karla