Flensburg – Haukar umfjöllun

Meistaradeild Evrópu 2008/2009Eins og fram kom í beinni útsendingu frá leik Flensburgar og Hauka á fimmtudag átti að koma nánari umfjöllun um leikinn á fimmtudagskvöld. En vegna tæknilegra vandamála var það ekki hægt fyrr en nú og hér kemur nánari umfjöllun um leikinn.

Leikurinn var mjög jafn til að byrja með og skiptust liðin á að skora mörkin. Flensburg var þó skrefinu á undan fyrstu mínúturnar en þó aldrei meira en einu marki yfir. Staðan var 6-6 og komust Haukastrákarnir yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 6-7. Í korter voru strákarnir okkar með yfirhöndina í leiknum og komust mest þremur mörkum yfir, 12-9. Flensburg jafnaði svo 13-13 og komust aftur yfir í stöðunni 14-13. Á þessum tíma fengu Haukastrákarnir frekar margar tveggja mínútna brottvísanir sem hefði mátt sleppa miðað við dómgæsluna hinum megin á vellinum. En því verður samt sem áður ekki breytt. Staðan í hálfleik var 19-14 Flensburg í vil og Haukar búnir að spila mjög vel. 

Í síðari hálfleik hélt spennan áfram. Liðin skiptust á að skora allan hálfleikinn og fór svo að lokum að Flensburg sigraði síðari hálfleikinn með 1 marki. Lokatölur voru svo 35-29, 6 marka tap gegn stórliði er ekki svo slæmur árangur.

Haukastrákarnir stóðu sig mjög vel og áttu sérstaklega tveir leikmenn, Andri Stefan og Kári Kristján, stórleiki og var leikurinn góð auglýsing fyrir þá. Höllin var nánast troðfull og mikil stemning. Í kringum 40 Haukamenn sáu leikinn og heyrðist vel í þeim allan tímann. Stuðningsmennirnir eiga hrós skilið fyrir þann mikla stuðning sem þeir veittu strákunum og vöktu þeir mikla athygli í höllinni. Samkvæmt tölum frá EHF var áhorfendafjöldinn á leiknum 6.100 manns.

Umgjörð leiksins var algjörlega til fyrirmyndar. Höllin tekur um 6.500 manns og er vissulega stór. Sjoppur voru í hverju horni þannig vel er búið að áhorfendum. Kynningin á leikmönnum var mjög flott og mjög vel var tekið á móti Haukafólki. Sérstakt VIP herbegri var fyrir VIP gesti leiksins og var þar boðið upp á þýskt hlaðborð að leik loknum.

Næsti Evrópuleikur er svo um næstu helgi þegar Haukastrákarnir taka á móti stórliði Veszprém frá Ungverjalandi. Við munum fjalla um leikinn í vikunni og koma með kynningu á liði Veszprém og fleira.