Fjöldi Haukafólks á leið til Flensburgar

Meistaradeildin 2008/2009Búist er við um 30 – 40 Haukafólki í pöllunum í Flensburg í kvöld þegar strákarnir í meistaraflokki leika gegn liði SG Flensburg-Handewitt í íþróttahöllinni í Flensburg. Leikurinn hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma og eins og áður hefur komið fram í beinni útsendingu á Eurosport 2.

Fjöldi Haukamanna er nú á leiðinni með flugum Icelandair og Iceland Express til Kaupmannahafnar. Þar bíður nú þegar stór hópur fólks sem flaug út í gær og var því í Köben í nótt. Þegar hópurinn lendir í Kaupmannahöfn tekur við rútuferð til Flensburgar þar sem hópurinn verður í nótt. Að sjálfsögðu mun hópurinn láta vel í sér heyra í stúkunni og munu þeir sem fylgjast með leiknum á Eurosport 2 að sjálfsögðu heyra „Áfram Haukar“ úr pöllunum.  Við vonumst svo að sjálfsögðu að mynd af hópnum muni birtast, og það oftar en einu sinni. 
 
Strákarnir fóru út í gær og voru í Flensburg í nótt. Þeir æfðu í höllinni í gærkvöldi og aftur í dag. Við biðjum alla sem vettlingi geta valdið hér heima á Ísland, sem og erlendis, til að senda strákunum sterka strauma í kvöld og vonum að þeir nái sem bestum úrslitum. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni hér á heimasíðunni en með hjálp hins góða hóps sem fer út getum við birt tölur mjög reglulega hér. Eins og áður segir hefst leikurinn klukkan 18:00 að íslenskum tíma og má því búast við fyrstu tölum hér á síðuna um fimm mínútum síðar.