Fjögurra marka tap gegn Fram.

HaukarÁ miðvikudaginn síðastliðinn (17. nóvember) tóku Haukastrákarnir á móti liði Fram á Ásvöllum.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en Framarar börðust eins og ljón og var jafnt í hálfleik, 14-14. Í seinni hálfleik virtust Haukamenn eins og hauslaus her í sókn og má segja að undir lokin hafi ágætur varnarleikur og fín markvarsla séð til þess að tapið yrði ekki stærra en raun bar vitni en lokatölur voru 27-31 fyrir Fram.

Markahæstir hjá Haukum voru Björgvin Þór Hólmgeirsson með 11 mörk og Guðmundur Árni Ólafsson með 6 mörk. Birkir Ívar Guðmundsson varði 15 skot og Aron Rafn Eðvarðsson 6.

Í liði Fram voru markahæstir Haukarinn Einar Rafn Eiðsson með 10 mörk og Jóhann Gunnar Einarsson með 6 mörk. Magnús Gunnar Erlendsson fór mikinn í marki Fram og varði 21 skot.