Eins og flestir Hafnfirðingar vita þá verður stórleikur í N1-deild karla á miðvikudaginn þegar FH og Haukar mætast í N1-deild karla. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og fer leikurinn fram í Kaplakrika. Miðasala á leikinn hefst klukkan 12:00 í verslunarmiðstöðinni Firðinum í dag.
Það er orðið langt síðan þessi lið mættust í deildarkeppni og því er mikil tilhlökkun fyrir þessum leik, ekki bara hjá leikmönnum liðana og Hafnfirðingum heldur hjá flestum landsmönnum sem fylgjast með handbolta.
FH-ingar hafa komið flest öllum skemmtilega á óvart með spilamennsku sinni og eru fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Valur og Akureyri, átta stig talsins.
Haukaliðið hefur aftur á móti tapað þremur leikjum í deildinni og sigrað þrjá. En með sigri geta þeir náð FH-ingum að stigum.
Meiri umfjöllun verður um leikinn á næstu dögum en fyrir þá sem vilja tryggja sér miða á leikinn þá er forsala í Firðinum í dag milli klukkan 12:00 og 16:00.
Það verða leikmenn meistaraflokks FH sem sjá um að selja miðana. Miðaverð er eins og gengur og gerist, 1000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir 16 ára og yngri. En með því að kaupa miða í forsölunni þá gætir þú sleppt alfarið við raðir í miðasölunni á miðvikudaginn fyrir leik. Það er því tilvalið fyrir fjölskylduna að gera sér glaðan dag á miðvikudaginn og horfa á frábæra skemmtun á góðu verði.
Það mætti teljast ótrúlegt ef eitthver handboltaáhugamaður og hvað þá Haukamaður mundi láta þennan stórleik framhjá sér fara, enda ekki á hverjum degi sem Hafnarfjarðarslagur er í N1-deild karla.