Ena Car og Lara Židek til liðs við Hauka

Ena Car og Lara Židek

Hkd. Hauka hefur gert 2ja ára samning við Enu Car og Löru Židek en þær koma frá Króatíu. Báðar spiluðu þær með ŽRK Koka Varaždin í króatísku deildinni á síðasta tímabili en liðið lent í 8. sæti af 14 liðum.

Ena Car er 23 ára vinstri skytta en getur líka leyst hægri skyttuna ásamt því að vera góður varnarmaður. Hún hefur verið ein af markahæstu leikmönnum króatísku deildarinnar síðustu tímabil en á liðnu tímabili skoraði hún 102 mörk í 24 leikjum. Ena á að baki leiki fyrir yngri landslið Króatíu og því um góðan liðstyrk að ræða fyrir meistaraflokk kvenna.

Lara Židek er 25 ára leikstjórnandi sem getur leyst allar stöðurnar fyrir utan. Lara er ekki ókunnug Íslandi en hún lék með Selfossi í Grill66 deild kvenna tímabilið 2020-2021 en hún varð fyrir því óláni að slíta krossband um mitt tímabil og kláraði því ekki tímabilið með Selfossi. Hún kom svo sterk til baka eftir meiðslin eftir ármótin með liði ŽRK Koka Varaždin þar sem hún lét mikið að sér kveða. Lara hefur einnig leikið með liðum í Noregi og kemur hún því til liðs við Hauka með góða reynslu.

Við undirskriftina hafði Ragnar Hermannsson þjálfari meistaraflokks þetta að segja: „Það er ánægjuefni að fá Enu og Löru til liðs við Hauka en þær munu styrkja liðið til muna. Þetta eru leikmenn á þeim aldri sem passa vel inn í hópinn og eiga þær án efa eftir að aðlagast liðinu og Íslandi fljótt og vel.“

Haukar bjóða Enu og Löru velkomnar í Haukafjölskylduna en búast má við þeim til Íslands í lok júlí þegar undirbúningur fyrir tímabilið heldur áfram. Það verður því spennandi að sjá þær í Haukabúningnum eftir sumarið. Áfram Haukar!