Haukar hefja leik í Dominos deild karla núna á föstudaginn þegar Valsmenn mæta til leiks í Schenker-höllina. Valsmenn komu ásamt Haukum upp í deild þeirra bestu og verður gaman að sjá hvernig liðin spjara sig í fyrsta leik.
Emil Barja fyrirliði Haukaliðsins er var brattur þegar Haukasíðan náði tali af honum og segir mikla eftirvæntingu ríkja í liðinu og að stefna liðsins sé sett á úrslitakeppnina.
„Það er mikil eftirvænting í hópnum fyrir fyrsta leik. Við erum loksins aftur komnir í úrvalsdeildina þar sem við eigum heima eftir smá pásu í 1. deildinni og gott að fá fyrsta leik sem heimaleik og á móti liðinu sem komst upp úr 1. deildinni með okkur.“
Haukaliðið styrktist töluvert í teignum þegar þeir Svavar Páll Pálsson og Brynjar Ólafsson gengu til liðs við Haukaliðið nú í haust. Að sama skapi þá komu inn ungir og efnilegir leikmenn upp í meistaraflokk þegar þeir Kári Jónsson, Kristján Leifur Sverrisson og Hjálmar Stefánsson gengu upp. Emil segir hópinn sterkari núna og að samkeppni verði um spilatíma.
„Já ég tel okkur aðeins betri núna. Við reyndar misstum Guðmund Kára, Andra og Elvar frá því í fyrra sem voru góðir en ungu strákarnir hafa sýnt að þeir eru ekkert verri og eiga bara eftir að verða betri. Svavar og Brynjar styrkja okkur helling inní teignum og mun meiri samkeppni um spilatíma verður þar sem er mjög gott fyrir liðið okkar.“
„Undirbúningur liðsins hefur verið góður. Við erum búnir að æfa mikið í sumar ásamt því að vera á lyftingaræfingum þannig við ættum allir vera tilbúnir í veturinn. Markmið okkar er að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Emil þegar hann var spurður um hvernig undirbúningur hafi verið fyrir komandi átök og hvaða stefnu liðið setti sér.
Emil segir að Haukar muni vinna leikinn á föstudaginn og þegar hann var fenginn til að spá fyrir um úrslitin sagði hann: „Ég ætla að vera bjartsýnn og segja að hann endi 90-60 fyrir Haukum.“