Úrslitaeinvígi Hauka og Aftureldingar um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 6. maí nk. Fyrsti leikurinn fer fram að Varmá í Mosfellsbæ og hefst kl. 19.30. Haukafólk er hvatt til að fjölmenna á leikinn og styðja við bakið á strákunum í þessum mikilvæga leik en boðið verður upp á rútuferðir frá Ásvöllum. Haukaliðið hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og sópuðu strákarnir deildarmeisturum Vals úr keppni í undanúrslitum. Mosfellingar hafa hins vegar sýnt að þeir eru erfiðir við að etja og tókst á ótrúlegan hátt að senda ÍR í sumarfrí í fimmta leik. Því er ljóst að það stefnir allt í hörku einvígi tveggja bestu handknattleiksliða landsins. Handknattleiksáhugafólk ætti því ekki að láta leikina fram hjá sér fara og upplifa stemmninguna á pöllunum í návígi við leikina. Rútur leggja af stað frá Ásvöllum á miðvikudaginn um kl. 18.00.
Annar leikur úrslitarimmunnar fer síðan fram á heimavelli Hauka í Schenkerhöllinni föstudaginn 8. maí kl. 19.30. Nánar um það síðar.
ÁFRAM HAUKAR!