Einstaklingsþjálfun með Helenu Sverrisdóttur

Haukar í samvinnu við Helenu Sverrisdóttur standa fyrir séræfingum fyrir allar stelpur 12 ára og eldri og hefjast æfingar föstudaginn 18. maí. Lögð verður áhersla á einstaklingsmiðaða þjálfun þar sem mið er tekið af getu hvers og eins. Gerð verður áætlun í upphafi fyrir hvern og einn og fundið út á hvaða þætti lögð verður áhersla á þannig að hver og einn geti unnið í þeim þáttum sem að hann þarf helst á að halda.

Helena segir að kveikja af því að hún og Haukar ákváðu að setja svona þjálfunarprógramm í gang vera sú að henni hefur alltaf fundist gaman að miðla reynslu til annarra.

„Mér finnst alltaf gaman að reyna að miðla minni reynslu til stelpnanna hérna heima og þegar að ég kom heim frá slóvakíu fórum við strax í að reyna að setja upp eitthvað nýtt og spennandi verkefni þar sem að stelpur gætu komið og æft aukalega,“ sagði Helena og bætti við að það er oft spennandi að komast á æfingar þar sem að áhersla er lögð á einstaklinginn og bæta veikleika og aðra þætti en ekki bara spila 5 á 5.

Helena kemur til með að sjá alveg um prógrammið frá upphafi til enda en „skýst“ á NM með A-landsliðinu og fær þá góða hjálp.

„Við (landsliðið) erum að fara á NM 23 maí og mun Ívar Ásgrímsson leysa mig þá helgi. Annars mun ég sjá um að byggja upp prógrammið og þetta verða mikið af æfingum sem að ég hef tekið inn eftir fjögur ár í háskóla og mitt fyrsa ár sem atvinnumaður.“

Helena vill sjá sem flestar stelpur í þessu og öllum stelpum er velkomið að koma hvaðan af af landinu.

„Æfingarnar verða opnar fyrir allar stelpur sama hvaðan þær koma. Ég vil endilega sjá sem flestar stelpur koma hvort sem að það eru allar fjórar helgarnar eða bara tvær. Þetta er gert fyrir stelpurnar og ég vona að sem flestar sjái þetta sem tækifæri til að bæta sinn leik,“ segir Helena að lokum.

Æfingarnar hefjast sem fyrr segir 18. maí og lýkur sunnudaginn 10. júní. Alls eru þetta 12 æfingar sem að eru í boði og kostar þjálfunin 10.000 krónur.

Skráning fer fram á hsverrisdottir@yahoo.com eða í síma 778-6822.