Drengjaflokkur hóf Íslandsmótið um síðustu helgi með sigri á Þór Akureyri. Leikurinn fór fram norðan heiða og urðu lokatölur 52-81.
Haukar byrjuðu af miklum krafti og leiddu 2-18 eftir tæplega sex mínútna leik. Heimamenn komu sterkari út úr leikhléi og minnkuðu muninn í 14-22 þegar fyrsta leikhluta lauk.
Annar leikhluti var þó algjör eign Hauka sem hreinlega kafsigldu Þórsara og unnu leikhlutann 6-19. Hálfleikstölur 20-41.Heimamenn áttu góðan kafla í upphafi seinni hálfleiks, en Kristinn Marinósson kom Haukum aftur á bragðið með því að skora 9 af 13 stigum sínum í þriðja leikhluta. Eftir þriðja leikhluta var staðan 40-64.
Liðin skiptust á körfum út síðasta leikhlutann, Haukar innbyrtu öruggan og sanngjarnan sigur 52-81 fyrir nýja þjálfarann sinn, Yngva Gunnlaugsson.
„Ég var ánægður með vinnsluna í liðinu heilt yfir en þó voru hnökrar á sóknarleiknum á köflum“, sagði Yngvi þegar heimasíðan náði tali af honum.
„Menn voru ekki alveg klárir á kerfunum en það er svo sem í lagi á meðan vörnin stendur sig vel lengstan hluta leiksins eins og hún gerði. Við gerðum það sem við ætluðum okkur og það var fyrst og fremst að vinna leikinn“, sagði Yngvi enn fremur.
Næsti leikur drengjaflokks er gegn ÍR 13. október í Seljaskóla.
Stig Hauka: Haukur 20, Kristinn 13, Andri 13, Emil 8, Ævar 8, Guðmundur 7, Jón Steinar 6, Ásgeir 4.