Domino´s deild kvenna af stað í kvöld: Bjarni ræðir um tímabilið

Þessar stelpur verða á HaukarTV í kvöldStelpurnar taka á móti Keflavík í kvöld í fyrsta leik vetrarins í Domino´s deild kvenna og hefst leikurinn kl. 19.15 og verður hann í beinni útsendingu á HaukarTV. Verkefnið er ærið í fyrsta leik en liði Keflavíkur var spáð titlinum í árlegri spá forráðamanna, þjálfara og fyrirliða sem var birt í gær. Í sömu spá var okkar stelpum spáð 5.-6. sæti. Heimasíðan setti sig í samband við Bjarna þjálfara og ræddi aðeins við hann.

Ykkur og Njarðvík spáð 5.-6. sæti fyrir komandi tímabil eftir að hafa barist um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. Kom þér þetta á óvart? ,,Nei það gerði það ekki. Við erum með nokkuð breytt lið frá því í fyrra, nýr erlendur leikmaður var að lenda og okkur hefur gengið upp og niður í undirbúningnum, þannig að þessi spá kom hvorki mér né Henning neitt á óvart. En það er alltaf gaman af svona spám þótt ég sé nú ekki að rýna mikið í þær.“

Hópurinn er nokkuð breyttur frá því á síðustu leiktíð, geturðu sagt okkur aðeins frá þeim breytingum? ,,Við vorum með tvo erlenda leikmenn s.l. vetur, en með breyttum reglum þá má hvert lið vera með einn erlendan leikmann þetta tímabil. Einnig er Sara Pálmadóttir hætt sem og að Kristín Fjóla er farin í Stjörnuna. Svo eru Guðrún Ámunda og Íris Sverris frá vegna meiðsla og munur nú um minna. Íris mun ekki spila með í vetur og óvíst hvenær Guðrún kemst á parketið, en vonandi verður það í kringum áramótin. En við höfum líka fengið góða leikmenn í staðin, Lovísa Henningsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir eru komnar heim aftur. Einnig ákvað Jóhann Björk Sveinsdóttir að skipta yfir í Hauka og svo eru ungar og efnilegar stelpur úr yngri flokkunum að fá tækifæri með liðinu, sem er bara gott mál. Þannig að það má segja að það séu töluverðar breytingar frá síðasta tímabili.“

Siarre Evans kom til móts við liðið á mánudaginn, hvernig eru fyrstu kynni? ,,Fyrstu kynni eru góð. Hún náði æfingu með okkur á mánudag og í gær þannig að hún fær ekki mikin tíma með liðinu fyrir fyrsta leik. En við spilum þrjá leiki fyrstu vikuna þannig að henni er hent beint út í djúpu laugina, vona að hún eigi eftir að spjara sig vel.“

Ef þú ættir að spá fyrir um endanlega niðurröðun hvar myndirðu þá staðsetja Haukaliðið? ,,Færð mig ekki til að spá, en ég veit að stelpurnar og við þjálfararnir erum til í að leggja mikið á okkur til að vera eins ofarlega á töflunni og mögulega hægt er í lok mótsins.“

Hvernig fer leikurinn í kvöld? ,,Mætum liðinu sem er spáð sigri í mótinu, þannig að við fáum hörku andstæðing í fyrsta leik. Veit að stelpurnar eru tilbúnar í slaginn og munu gefa sig alla í verkefnið. Auðvitað ætlum við að vinna þennan leik eins og alla aðra sem við eigum efir að spila í vetur. Vona innilega að við fáum góðan stuðning í kvöld, það sýndi sig á síðasa tímabili að stuðningur áhorfenda getur skipt sköpum… allir á völlinn og áfram Haukar.“