Brynjar Viggósson tekur við sem formaður knattspyrnudeildar Hauka

Brynjar Viggóssson tekur við sem formaður knattspyrnudeildar Hauka
• Reksturinn í járnum
• Gildi knattspyrnudeildar Hauka eru Þrautseigja, Liðsheild, Hugrekki og Gleði
• Þakkir til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og starfsfólk bæjarins
• Ágætur gangur í barna- og unglingastarfinu
• Markmiðið að meistaraflokkar spili í Lengjudeildinni

 

• Þakkir til fjölmargra stuðnings- og samstarfsaðila
• Nýir starfsmenn efla deildina
• Starfshópur um knatthúsið
Aðalfundur knattspyrnudeildar Hauka var haldinn þann 7. febrúar á Ásvöllum þar sem Brynjar Viggósson var kjörinn formaður deildarinnar auk þess sem stjórn deildarinnar var endurkjörin.
Fráfarandi formaður deildarinnar, Halldór Jón Garðarsson, fór yfir síðasta starfsár og bar þar hæst stefnumótunarvinna þar sem ný gildi voru meðal annars innleidd en þau eru Þrautseigja, Liðsheild, Hugrekki og Gleði.
Þá var nýr æfinga grasvöllur með vökvunarkerfi tekinn í notkun sl. vor auk þess sem framkvæmdir við knattspyrnuhöllina ganga mjög vel og eru á áætlun. Fyrirhugað er að æfingar hefjist í desember á þessu ári. Miklar framkvæmdir hafa verið á svæðinu þar sem girðingar hafa verið reistar til að loka vellinum en um að ræða stórt baráttumál í mörg ár. Vill stjórn knattspyrnudeildar koma miklum þökkum til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og starfsmanna bæjarins fyrir stuðning við Knattspyrnufélagið Hauka og framsýni við uppbyggingu á svæðinu.
Nokkur fjöldi leikmanna úr barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar spilaði með yngri landsliðum og tók þátt í hæfileikamótun KSÍ. Almennt gekk ágætlega á mótum sumarsins. Meistaraflokkar karla og kvenna eru enn í 2. deild og markmiðið er að koma báðum liðum upp í Lengjudeildina. Stefnan er að byggja á traustum grunni uppaldra leikmanna þar sem ungir og efnilegir leikmenn fá snemma tækifæri með meistaraflokkum.
Ágætlega tókst að fjölga styrktar- og samstarfsaðilum sem og að fjölga stuðningsmönnum í Haukum í horni. Þó er ljóst að gera þarf enn betur á báðum sviðum enda hefur kostnaður við afreksstarf aukist mikið í takt við meiri kröfur varðandi þjálfara til að tryggja bestu faglegu þjálfun á öllum sviðum. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar fjölmörgum stuðnings- og samstarfsaðilum fyrir stuðninginn sem er ómetanlegur.
Starfshópur vegna tilkomu knattspyrnuhallarinnar var skipaður sem hefur m.a. það hlutverk að koma með ábendingar um hvernig Knattspyrnufélagið Haukar getur nýtt þetta magnaða mannvirki enn betur fyrir samfélagið í kringum Ásvelli í heild sinni. Þá er unnið að knattspyrnulegum markmiðum þannig að knattspyrnudeild Hauka taki næstu skref til framtíðar enda gríðarleg tækifæri sem munu skapast með tilkomu hallarinnar.
Andri Hjörvar Albertsson tók við sem yfirþjálfari knattspyrnudeildar á liðnu ári og kemur hann mjög sterkur inn ásamt Friðberti Bjarka Guðjónssyni sem var ráðinn sem verkefnastjóri í 50% starf ásamt því að sinna þjálfun yngri flokka. Þá tók Guðjón M. Þorsteinsson við sem vallarstjóri á árinu og er hann mikill hvalreki fyrir knattspyrnudeild Hauka.
Rekstur knattspyrnudeildar er í járnum og sýnir okkur enn og aftur hve mikilvægt er að gæta mikils aðhalds í rekstri íþróttahreyfingar.
Brynjar Viggósson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, kveðst taka við af auðmýkt og sterkri kröfu um að gera enn betur á krefjandi en gríðarlega spennandi uppgangstímum fótboltans í Haukum, þar sem stutt er í knattspyrnuhöllina. Nú þurfum við að láta verkin tala.

 

Halldór Jón Garðarsson, fráfarandi formaður stjórnar, kveðst afar spenntur fyrir því að Brynjar taki við sem formaður deildarinnar.
,,Við Brynjar erum báðir uppaldir Haukamenn og erum í þessu sjálfboðastarfi út af ást okkar á Haukum og fagna ég því mjög að Brynjar gaf kost á sér sem formaður enda hefur þann kraft til að leiða deildina á komandi misserum,“ segir Halldór sem mun sitja áfram í stjórn deildarinnar auk þess að vera formaður meistaraflokksráðs kvenna og sitja áfram í framkvæmdanefnd um knatthúsið.
Stjórn knattspyrnudeildar fyrir starfsárið 2024 er eftirfarandi:
Baldur Páll Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs
Brynjar Viggósson, formaður
Elísabet Finnbogadóttir
Gísli Aðalsteinsson
Halldór Jón Garðarsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna
Haukur Jónsson
Helgi Fannar Sigurðsson
Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráð karla
Jón Óskar Pjetursson
Oddný Sófusdóttir
Rakel Ósk Sigurðardóttir