Breki og Hilmar til Hauka

Breki Gylfason og Hilmar Smári Henningsson ganga aftur í raðir Hauka

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur náð samkomulagi við Hilmar Smára Henningsson og Breka Gylfason um að spila með liði Hauka í Subwaydeildinni á næsta tímabili.

Þessa drengi þarf vart að kynna fyrir Haukafólki en Hilmar Smári spilaði upp alla yngri flokka félagsins áður en hann hélt til Spánar í atvinnumennsku hjá Valencia. Hann snéri aftur heim fyrir þetta tímabil og spilaði með liði Stjörnunnar í vetur sem varð bikarmeistari árið 2022.

Breki skipti frá Haukum fyrir þetta tímabil og spilaði með ÍR í vetur. Hann hafði spilað með Haukum um árabil fyrir skiptin yfir í ÍR og var einn af lykilmönnum liðsins tímabilið 20-21.

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það hversu ánægulegt það er að fá þessa drengi heim í Hauka og er ljóst að þeir munu hjálpa Haukaliðinu gríðarlega í baráttunni í Subwaydeildinni á næstu leiktíð.

Velkomnir heim.