Bjarki Bergmann Gunnlaugsson í Hauka

Það verður fróðlegt að sjá þá, Arnar og Bjarka leika í Haukabúningnum í sumar Bjarki Bergmann Gunnlaugsson hefur skrifað undir eins árs samning við Hauka og mun því leika með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar. Þetta staðfesti Andri Marteinsson við fréttaritara eftir leik Hauka og Fylkis sem fram fór á Ásvöllum í gærkvöldi, þar sem Haukar fóru með sigur úr bítum 2-1, með mörkum frá Hilmari Trausta og Guðjóni Pétri.

Bjarki er eins og flestir vita, tvíburabróðir Arnars Gunnlaugssonar, sem gekk til liðs við Hauka fyrr í vetur og mun leika með Haukum sem og að vera aðstoðar þjálfari liðsins.

Samhliða því að leika með Haukum mun Bjarki stjórna og hafa yfir umsjón á einkaæfingum fyrir leikmenn í yngri flokkum Hauka, ásamt Kristjáni Ómari, Daða Lárussyni leikmönnum meistaraflokks Hauka og Árna Hjörvari yngri flokka þjálfara hjá Haukum.

Bjarki er þar með sjötti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka fyrir tímabilið. Hann lék síðast með Val í Pepsi-deildinni í sumar, en hann lék hinsvegar bara einn leik vegna meiðsla. Þar áður stýrði hann Skagamönnum í  1.deildinni ásamt bróður sínum. Hann hefur einnig leikið með FH, KR og stórliði Deiglunnar hér á landi auk þess að hafa spilað í atvinnumennskunni. Svo má ekki gleyma því að hann á 47 landsleiki á bakinu.

Hann mun klárlega styrkja liðið í sumar, en hann hefur í vetur verið að æfa sjálfur og verið hjá sjúkraþjálfara og ætti að vera tilbúinn fyrir sumarið og vonum við að meiðslasaga hans sé nú lokið.

Eins og fyrr segir staðfesti Andri Marteinsson þjálfari liðsins þetta við fréttaritara Haukar.is í gærkvöldi. Hann var ánægður með leikinn og ánægður með þau þrjú stig sem fengust úr leiknum. Hann vildi þó að menn héldu sér á jörðinni og einbeitti sér á næsta leik sem er gegn Þór einmitt á Ásvöllum. En að félagskiptunum við Bjarka, var hann nú fremur rólegur. Sagði jú, að þarna væri á ferðinni mjög góður knattspyrnumaður og líklega betri en bróðir sinn og glotti til Arnars í leiðinni.

Hann vildi annars lítið tjá sig, en hvatti alla Haukara að mæta á blaðamannafund sem og stuðningsmannafund Hauka sem fram fer á Ásvöllum í dag klukkan 15:00 í veislusalnum á Ásvöllum.

Þar verður skrifað undir samninginn við Bjarka sem og Daníel Einarsson. Einnig munu allir leikmenn meistaraflokks mæta. Bjarki verður einnig með kynningu á einkaæfingunum sem var greint frá hér að ofan og verður einnig hægt að skrá sig í það í dag.

Ási kokkur mun svo elda ofan í fólkið ljúfenga rjómasúpu. Það er því opið fyrir alla á stærsta blaðamannafund ársins.

Ásvellir – Veislusalur – Í dag klukkan 15:00 !

 

*******************

Frá Haukasíðunni:

Hér er um að ræða 1 apríl gabb Haukasíðunnar.