Birkir Ívar: Byrjunin á mótinu getur varla verið betri

Birkir Ívar Guðmundsson lék sinn fyrsta leik í N1-deild karla með Haukum, síðasta laugardag gegn Stjörnunni. Birkir átti þá góðan leik og varði þá ófáa boltana.

Hann átti stóran þátt í því að öruggur sigur Hauka í leiknum varð staðreynd. Við tókum Birki að tali og spurðum hann aðeins spjörunum út.

Við spurðum hann fyrst að því hvernig væri að vera kominn heim og byrjaður að spila með Haukum ? „ Það er mjög fínt að vera kominn aftur heim, en ég vissi auðvitað að hverju ég gékk varðandi Hauka. Þannig að ég er mjög sáttur.“

Við spurðum hann svo að því hvernig honum litist á samkeppnina við Gísla Guðmundsson. Birkir vildi ekki kalla þetta samkeppni heldur samvinnu með Gísla, „Mér lýst bara mjög vel á samvinnuna með Gísla, alger eðal náungi þar á ferð. Þar að auki er hann góður íþróttamaður og við náum örugglega að styðja vel við hvorn annan. “

Hvernig fannst þér byrjunin vera hjá liðinu gegn Stjörnunni ? „ Byrjunin á mótinu getur varla verið betri. Öruggur sigur á andstæðingum sem eiga eflaust eftir að blanda sér í baráttuna um efstu sætin. Þar að auki virkuðum við með mikið sjálfstraust og leikgleðin var í fyrirrúmi. Einnig var fín mæting á Ásvelli og góð stemming.“

Við fyrstu sýn, hvernig finnst þér handboltinn vera nú, með tilliti til þess hvernig hann var þegar þú varst hér að spila síðast ? „ Það er erfitt að meta það eftir aðeins einn leik í deildinni. En miðað við það sem ég hef séð, virðist deildin vera á uppleið. Umgjörð félaganna hefur auk þess batnað til muna sem er mjög gott mál. “

Við spurðum Birki svo að lokum, hvort að stemmingin í hópnum væri ekki góð og menn tilbúnir í leikina sem framundan eru ? „Jú, stemmingin er mjög flott. Hjá okkur er góð blanda af eldri og yngri leikmanna sem að ná vel saman bæði inn á og fyrir utan völlinn. Haukamenn eru því tilbúnir í leikina sem framundan eru.“

Með þessum orðum ljúkum við þessu viðtali, en minnum á næsta leik hjá meistaraflokki karla sem er næstkomandi laugardag klukkan 16.00 gegn Akureyri á Ásvöllum.