Það var dýrðardagur í sögu Hauka á Laugardaginn þegar meistaraflokkur kvenna tryggði sér Poweradebikarinn eftir hörku einvígi við Snæfell 70-78. Þetta er jafnframt sjötti bikartitillinn (1984, 1992, 2005, 2007, 2010 og 2014).
Leikurinn byrjaði ekki sem best fyrir Haukastúlkurnar og gekk þeim illa að koma boltanum ofan í körfuna. Að sama skapi gekk allt upp hjá Snæfellsstúlkum sem voru 5 af 5 í fyrstu skotunum sínum innan þriggjastigalínunnar. Leikhlutinn endaði 21-11 Snæfelli í vil og gátu Haukar þakka sínu sæla að vera ekki meira undir en það var gríðarlegt magn sóknarfrákasta sem bjargaði þeim frá því.
Það varð mikill viðsnúningur í sóknarleik Hauka í öðrum leikhluta þar sem að skotin fóru að detta niður. Vörnin var líka einstaklega góð og virkaði oft á köflum eins og að Haukarnir hefðu náð að lauma inn aukaleikmanni því sama hvað Snæfellingar reyndu þá voru alltaf komnar tvær rauðar treyjur í kringum boltann.
Eftir að Haukarnir komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þá fór að glitta í áhyggjusvip á andlitum Snæfellinga. Þær vissu sem og Haukar gerðu, að þær myndu ekki láta forustuna af hendi eftir að henni væri náð.
Seinni hálfleikur var gríðarlega spennandi. Snæfell voru aldrei langt undan en Haukar héldu forustunni til enda.
Lele Hardy endaði á því að eiga hreinkallaðan stórleik þar sem hún var með 44 stig, 14 fráköst og 7 stolna bolta.
Næst henni kom Margrét Rósa Hálfdanardóttir með 10 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði 8 stig og var með 7 fráköst, þar af 4 sóknarfráköst.
Tölfræði leiksins
Umfjöllun á Karfan.is
Myndasafn #1 eftir Axel Finn
Myndasafn #2 eftir Þorstein Eyþórsson
Myndasafn #3 eftir Tomasz Kolodziejski og Jón Björn Ólafsson
Mæli svo með því að fólk horfi á leikinn aftur og aftur – Upptaka RÚV