Á mánudagskvöldið heimsækir Haukar, lið Víkings Reykjavíkur í Borgunarbikar karla. Flautað verður til leiks klukkan 19:00 og ekki búist við öðru en hörkuleik hjá tveimur mjög svo frambærilegum liðum sem bæði leika í 1.deildinni.
Bæði lið hófu mótið með sigri á útivelli með sömu markatölu. Haukar unnu 2-1 útisigur gegn Þrótti á fimmtudaginn og á sama tíma unnu Víkingar, Grindvíkinga 2-1 í Grindavík.
Bæði lið stefna hátt í sumar, bæði lið hafa styrkt sig verulega og því má búast við hörkuleik á Víkingsvelli á mánudaginn. Við hvetjum alla Haukara til að fjölmenna í Víkina og styðja við Haukaliðið.
Ásgeir Þór Ingólfsson fór hreinlega á kostum í fyrsta leik Hauka og var til að mynda valinn leikmaður umferðarinnar í 1.deildinni. Hann hafði þetta að segja um bikarleikinn í viðtali við Fótbolti.net, eftir Þróttaraleikinn.
,, Víkingur er frábært lið. Þegar ég sá að við fengjum Víking í bikarnum á útivelli, þá fagnaði ég ekkert. Þetta er hinsvegar gaman að fá alvöru lið strax í fyrstu umferð í bikarnum. Við ætlum okkur svo sannarlega að komast áfram í næstu umferð,“ sagði Ásgeir aðspurður út í bikarleikinn gegn Víking.
Það verður nóg að gera hjá Haukaliðinu í næstu viku, því strax á föstudaginn leikur liðið fyrsta heimaleik sumarsins, gegn Grindavík. Stórleikur sem ENGINN Haukari vill missa af!
Næstu leikir Hauka:
Borgunarbikar karla: Víkingur R. – Haukar 13.maí kl. 19:00 – Víkingsvelli
1.deild karla: Haukar – Grindavík 17.maí kl. 19:15 – Ásvellir
ALLIR Á VÖLLINN – ÁFRAM HAUKAR!