„Best að vera á Ásvöllum“ – segir Hilmar Rafn

Haukar

Sóknar-miðjumaðurinn, Hilmar Rafn Emilsson skrifaði í síðustu viku undir samning við Hauka að nýju, og gengur þar með til liðs við Hauka eftir árs fjarveru þar sem hann lék Val í Pepsi-deild karla, reyndar lék Hilmar seinni partinn á síðasta tímabili með Haukum, þá á láni frá Val.

Það þekkja þó flestir Hilmar Rafn í Haukabúningum, enda alinn upp á Holtinu og hefur að undanskyldu síðasta ári, alltaf spilað í Haukabúningnum, það mætti því segja að hann sé kominn heim. 

Hilmar hefur leikið 123 meistaraflokksleiki fyrir Hauka og skorað í þeim 43 mörk, ekki slæmt það. Hann var til að mynda markahæsti leikmaður liðsins í 1.deildinni, sumarið 2011.

Undirritaður, fékk Hilmar Rafn til að svara nokkrum spurningum rétt eftir undirskriftina.

,,Það er mikill metnaður innan félagsins og maður finnur það hjá leikmönnum, þjálfurum og stjórninni. Það eru virkilega spennandi tímar framundan sem ég vil vera hluti af og þess vegna ákvað ég að snúa aftur heim. Þegar ég fór var alltaf planið að snúa heim en það var óljóst hvenær það yrði. Eftir að ég kom hingað í sumar að láni gerði ég mér grein fyrir því að það er best að vera á Ásvöllum. Þetta var í rauninni ekki erfið ákvörðun,“ sagði Hilmar Rafn aðspurður hver meginástæðan hafi verið að hann hafi ákveðið að koma aftur heim á Ásvellina. 

Eins og fyrr segir, spilaði Hilmar Rafn seinni partinn á síðasta tímabili með Haukum og við báðum hann að fara aðeins yfir síðasta tímabil og hvað hefði mátt betur fara,

,,Spilamennskan í sumar var heilt yfir þokkaleg. Suma leiki spiluðum við vel en suma illa. Það vantaði kannski ákveðinn stöðugleika í spilamennskuna. Varnarleikur liðsins var virkilega öflugur framan af sumri og var ástæða þess að við vorum lengi í toppbaráttunni en dalaði aðeins þegar á leið. Sóknarleikurinn var hins vegar okkar akkílesarhæll og hann þarf að laga fyrir næsta tímabil,“ sagði Hilmar sem mun líklega vera í stóru og mikilvægu hlutverki í sóknarleiknum á næsta ári, en hvernig lýst honum á hópinn, eins og staðan er í dag?

,,Ég er ánægður með þróun leikmannahópsins og mér líst vel á þá leikmenn sem gengnir eru til liðs við Haukana. Það er alltaf gott að fá uppalda menn aftur heim sem eru með Haukahjartað á réttum stað. Það væri óskandi að  enn fleiri uppaldir Haukarar myndu sjá ljósið og snúa heim. Það vantar ennþá 1-2 leikmenn í púslið,“ sagði hann síðan að lokum en eins og greint hefur verið frá, þá gekk Hilmar Geir Eiðsson og Ásgeir Þór Ingólfsson til liðs við Hauka á sama tíma en þeir eru líkt og Hilmar Rafn uppaldnir á Ásvöllum, auk þess fengu Haukar, Viktor Smára Hafsteinsson varnarmann frá Keflavík að láni en Viktor ólst upp í Haukum og sínum yngri árum. Auk þeirra gekk síðan Sigmar Ingi Sigurðarson markvörður til liðs við Hauka frá Breiðablik.

Við þökkum Hilmari Rafni fyrir svörin og óskum honum vel farnaðar í Haukabúningnum að nýju. Á næstu dögum birtum við fleiri viðtöl við leikmenn Hauka.