Baráttan heldur áfram í Domino’s deildinni

Ísfirðingar kíkja í heimsókn í Schenker höllina á morgun föstudag þegar Haukar og KFÍ mætast í sjöttu umferð Domino‘s deildar karla og hefst leikurinn kl. 17:30. Haukar sitja í 5. sæti deildarinnar með sex stig en KFÍ er án stiga á botninum. Liðin mættust í 32 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ á dögunum og höfðu Haukar betur í þeirri viðureign 61-66. Það er því ljóst að Ísfirðingar munu koma í hefndarhug í fjörðinn og freista þess að stinga af með stigin tvö.

Haukar hafa verið að spila flottan bolta í þeim leikjum sem af er tímabilinu. Liðið náði þó ekki sigri gegn Stjörnunni í síðustu umferð þrátt fyrir að hafa átt frumkvæðið framan af leik og ljóst að liðið ætlar sér aftur á sigurbrautina.

Börger og landsleikur.
Eftir að leiknum líkur verður Gunni klár með grillið og mun grilla ofan í þá sem vilja. Landsleikur Íslands og Króatíu verður sýndur á tjaldi upp á palli og því tilvalið að skella sér á borgara og horfa svo á landsleikinn í góðum félagskap. Með Gunna á grillinu að þessu sinni verða þeir feðgar Ingvar Jónsson og Pétur Ingvarsson en óþarft er að kynna þá kumpána sérstaklega.

Nú er vert að fara að mýkja upp raddböndin og hita upp lófana því þetta er eitthvað sem þú vilt ekki láta fram hjá þér fara.