Auður Íris Ólafsdóttir aftur í Hauka

Körfuknattleiksdeild Hauka og Auður Íris Ólafsdóttir hafa náð samkomulagi um að Auður spili með Haukum á næstu leiktíð og gildir samningur hennar til tveggja ára.

Auður er Haukafólki kunnug en hún ólst upp hjá félaginu og spilaði upp alla yngri flokka deildarinnar. Hún söðlaði svo um og tók slaginn með Skallagrími, Breiðablik og síðast Stjörnunni áður en hún tók ákvörðun um að koma heim á Ásvelli og spila fyrir Hauka.

Auður segist vera ánægð að vera komin aftur heim í Hauka þó ákvörðunin að yfirgefa Stjörnuna hafi verið erfið. „Mér finnst æðislegt að vera komin heim í Haukana, ákvörðunin var þó erfið þar sem Stjarnan er frábært félag.“

Auður var með 5.2 stig, 3.7 fráköst og 1.7 stoðsendingu að meðaltali í 20 leikjum á síðustu leiktíð hjá Stjörnunni. Þá var hún valinn varnarmaður ársins í Domino‘s deild kvenna á lokahófi Körfuknattleikssambandsins.

Auður hittir fyrir systur sína Sigrúnu og er þetta í fyrsta skipti sem þær systur spila saman í efstu deild. Þá er Ólafssalur, sem verður heimavöllur Hauka í Domino‘s deildinn á næstu leiktíð, nefndur í höfuð föður þeirra Ólafi E. Rafnssyni.

„Ég er spennt að fá spila með litlu systur og spila í Ólafssal – svo hugsa ég að þetta sé nú ákveðinn léttir fyrir móður okkar að geta haldið eingöngu með Haukum. Ég hlakka til tímabilsins, stelpurnar í þessu liði eru frábærar og mikill metnaður í félaginu. Það er rosalega gott að vera komin í Haukafjölskylduna aftur.“

Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, sagðist hlakka til að fá Auði til baka og að hún myndi styrkja liðið mikið á báðum endum vallarins. „Við hlökkum til að fá Auði heim og bæta í hópinn af uppöldum Hauka leikmönnum. Hún mun styrkja liðið mikið í vörn, sókn og með reynslu sinni. Það verður líka gaman að sjá systurnar saman aftur.“

Stjórn kkd. Hauka fagnar því að fá Auði til baka á Ásvelli og býður hana hjartanlega velkomna.