ÁTAKIÐ #BREYTUMLEIKNUM

HSÍ fór því af stað með átakið #BreytumLeiknum til þess að breyta gömlum og úreltum viðhorfum innan íþróttahreyfingarinnar gagnvart ungum stúlkum.

Markmiðið með átakinu er að skapa heim þar sem stelpur eru sjáanlegar í íþróttasamfélaginu og eiga sér sterkar og mikilvægar fyrirmyndir. Með þessu vill HSÍ ýta undir iðkun ungra stúlka bæði með meiri umfjöllun og betri umgjörð.

Markmið okkar felur einnig í sér að bæta ímynd kvennahandboltans og landsliðsins og fá fleiri ungar stelpur til þess að byrja að æfa handbolta, og stunda íþróttir lengur. Tölfræðin sýnir að strax á 14 ára aldri eru stelpur tvisvar sinnum líklegri til að hætta í íþróttum en strákar og 17 ára gamlar eru helmingur stelpna hættar að æfa íþróttir. Tími barna í íþróttum er talinn vera 10 ár og 78% þeirra stelpna sem hætta segjast ekki sjá fyrir sér neina framtíð í íþróttinni eða telja sig ekki hafa verið nógu góðar. Þessu þurfum við að breyta.

Samfélagslegur ávinningur af aukinni þátttöku stelpna í íþróttum er mikill. Rannsóknir sýna að íþróttir ýta undir sterkari sjálfsímynd krakka og eru mikilvæg forvörn gegn neyslu vímuefna. Jákvæð tengsl eru jafnframt á milli íþrótta og góðrar andlegrar heilsu,  þær byggja upp aga og félagsfærni en nýlegar kannanir benda til þess að þar séu íslensk börn eftirbátar annarra.

Við ætlum ekki að sitja hjá. Við ætlum að leggja okkar að mörkum og breyta leiknum, hvað með þig?

Hér má sjá videó sem fylgir átakinu. Nánar má lesa um átakið á www.breytumleiknum.is