Aron Rafn heim í Hauka

Handknattleiksdeild Hauka hefur gert 3ja ára samning við Aron Rafn Eðvarðsson um að snúa til baka til félagsins eftir 8 ár í atvinnumennsku. Aron Rafn þarf vart að kynna fyrir Haukafólki en hann verður 32 ára á þessu ári og er uppalinn í rauða Haukabúningnum. Hann kemur til liðs við Hauka frá SG BBM Bietigheim í Þýskalandi.

Aron hóf að leika með meistaraflokki Hauka árið 2007 og varð Íslandsmeistari með liðinu árin 2008, 2009 og 2010. Hann varð bikarmeistari með Haukaliðinu 2010 og 2012, og einnig deildarmeistari með liðinu 2009, 2010, 2012 og 2013. Aron fór svo út í atvinnumennsku til Svíþjóðar til Eskilstuna Guif sumarið 2013.

Aron lék með Guif í 2 ár en þaðan lá leiðin til Aalborg Håndbold í Danmörku þar sem hann lék í hálft tímabil áður en hann skipti yfir í SG BBM Bietigheim þar sem hann lék í eitt og hálft tímabil. Sumarið 2017 skipti Aron Rafn í ÍBV í eitt tímabili þar sem hann varð Íslanslandsmeistari, deildarmeistari og bikarmeistari vorið 2018 en Aron var meðal annars valinn mikivægasti leikmaður lokaúrslitana það tímabilið. Eftir tímabilið lá leiðin aftur út til Þýskalands þar sem hann samdi við HSV Hamburg þar sem hann lék í eitt og hálft ár þegar hann skipti yfir til SG BBM Bietigheim á ný þar sem hann klárar sinn samning í sumar.

Aron Rafn hefur leikið með íslenska landsliðinu frá árinu 2012 og hefur hann farið á 5 stórmót með liðinu, seinast árið 2017 þegar hann lék á HM í Frakklandi. Hann hefur leikið 84 landsleiki og skorað í þeim 6 mörk.

Aron Rafn hafði þetta að segja um heimkomuna í Hauka: „Ég er spenntur að koma aftur heim í Hauka eftir 8 ára fjarveru. Búið að vera skemmtilegt ferðalag hjá mér og glaður að koma aftur heim á Ásvelli og spila fyrir Hauka.“

Aron Kristjánsson þjálfari fagnar komu Arons en hann sagði þetta við undirskriftina: „Við erum alltaf stoltir þegar við sendum leikmenn í atvinnumennsku og því er mjög ánægjulegt þegar uppaldir leikmenn snúa aftur til félagsins eftir veruna erlendis. Við erum mjög ánægðir með að endurheimta Aron Rafn, sem er reyndur og góður markmaður. Hann á að geta miðlað af sinni reynslu til yngri leikmanna félagsins og styrkt liðið í titlabaráttunni.“