Arnar Númi til Breiðabliks

Hinn ungi og efnilegi Arnar Númi Gíslason, fæddur 2004, hefur gengið til liðs við Breiðablik. Númi er sóknarsinnaður leikmaður, áræðinn, býr yfir góðum hraða og er leikinn með boltann, og hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið fjóra leiki með meistaraflokki Hauka. Að auki hefur hann leikið fjóra leiki með U-17 ára landsliði Íslands.

Knattspyrnudeild Hauka óskar Núma góðs gengis og velfarnaðar hjá Breiðabliki sem er fjölmennasta og ein öflugasta knattspyrnudeild landsins. Númi er einn af fjölmörgum efnilegum iðkendum í barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar Hauka sem leggur ríka áherslu á öflugt fagstarf. Það er von knattspyrnudeildar Hauka að þetta skref Núma verði honum gæfuríkt á ferli sem er rétt að byrja. Hann fetar með þessu í slóð landsliðskvennanna Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur.

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka þakkar stjórn og starfsfólki Breiðabliks fyrir gott samstarf við þessi félagaskipti.

Breiðablik hlakkar til að fylgjast með þessum efnilega leikmanni halda áfram á braut framfara og er Arnar Númi boðinn hjartanlega velkominn til félagsins.

Breiðablik þakkar knattspyrnudeild Hauka fyrir góð samskipti og fagleg vinnubrögð í kringum félagaskiptin. Blikar bera mikla virðingu fyrir því öfluga og góða starfi sem unnið er hjá Haukum.

 

Arnar Númi og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við undirritun samningsins. Ljósm. Hulda Margrét 

 

Númi í leik með Haukum í sumar. Ljósm. Hulda Margrét