Anthonio Savant til Hauka frá Tógó

Haukar

Haukar hafa fengið framherjann Anthonio Savant De Souza til liðs við sig. Anthonio er fæddur árið 1994 en hann kemur frá Tógó. Haukar hafa áður skoðað þann möguleika að fá leikmann frá Tógó. 

Hann mætti til landsins um síðustu helgi og hefur æft með liðinu síðan. Hann var meðal áhorfanda í leik Víkings R. og Hauka í Borgunarbikarnum í gærkvöldi. 

,,Við fengum einn leikmann frá Tógó sem æfði með okkur í tíu daga í fyrra,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Hauka við Fótbolta.net í síðustu viku. 

,,Okkur leist ágætlega á hann, hann var í landsliðshóp Tógó í Afríkukeppninni og við ætluðum að fá hann hingað núna en hann fór annað. Við erum í góðu sambandi við Tógó. Við eigum mann sem þekkir til þar og er að hjálpa okkur.“ 

Anthonio er kominn með leikheimild og það er spurning hvort hann verði leikmannahópnum með Haukum gegn Grindavík í 1. deildinni á föstudagskvöld. Sá leikur hefst klukkan 19:00. 

Það verður dagskrá fyrir Haukara fyrir leik og mun Veislusalurinn opna kl. 18:00. Upplýsingar um dagskrá verður auglýst síðar.

Velkominn í Hauka Anthonio Savant – Bienvenue à Haukar!