Unglingaflokkur karla gerði góða ferð í Vesturbæinn þegar þeir mættu KR í DHL-höllinni. Strákarnir sigruðu sinn annan leik og hafa ekki tapað það sem af er vetri.
Leikurinn fór jafnt af stað og skiptust liðin á að skora. Haukar náðu smá forskoti á KR-inga undir lok fyrsta leikhluta og leiddu með 4 stigum þegar fyrsta leikhluta lauk, 17-21. Helgi B. Einarsson fór mikinn í leikhlutanum og skoraði 12 stig.
Mynd: Helgi var atkvæðamestur Hauka í dag – stefan@haukar.is
Áfram var leikurinn jafn og spennandi og gerðist lítið markvert. Haukar voru ekki að spila vel en gerðu næginlega mikið til að leiða með 5 stigum í hálfleik, 36-41.
Haukar byrjuðu seinni hálfleik á að pressa og gerðu það framan af leikhlutanum. Liðin héldu áfram að skiptast á körfum og KR skipti yfir í svæðisvörn. Haukar skoruðu þá 5 stig í röð og breyttu stöðunni úr 49-52 í 49-57. Haukar leiddu með 9 stigum þegar leikhlutanum lauk 51-60.
Áfram héldu KR-ingar að spila svæðisvörn. Kemur þá til sögunar Kristinn R. Kristinsson en hann átti ótrúlegan fjórða leikhluta. Kristinn skoraði öll 14 stigin sín í leikhlutanum og þ.a. 4 þriggjastiga körfur og átti stóran þátt í 13 stiga sigri Hauka í dag. Lokatölur urðu 67-80 og eru Haukar á toppi deildarinnar ásamt Keflavík og Fjölni.
Helgi B. Einarsson var stigahæstur Hauka í dag en hann gerði 26 stig og tók 8 fráköst. Kristinn R. Kristinsson var næstur Helga með 14 stig (4 þriggjastiga körfur).
Stigaskor dreifðist annars þannig:
Helgi B. Einarsson 26 stig, 8 fráköst og 2 varin skot.
Kristinn R. Kristinsson 14 stig
Gunnar Magnússon 12 stig
Emil Barja 7 stig og 6 stoðsendingar
Arnar H. Kristjánsson 6 stig og 10 fráköst
Kristinn Marinósson 5 stig
Birkir Pálmason 4 stig
Guðmundur K. Sævarsson, Alex Óli Ívarsson og Haukur Óskarsson 2 stig hvor
Andri Freysson og Ásgeir Einarsson komust ekki á blað.