Í dag skrifaði Anna Margrét Gunnarsdóttir leikmaður Keflavíkur undir tveggja ára samning við Hauka. Anna Margrét er þriðji leikmaðurinn á örfáum dögum sem skrifar undir samning við Hauka en eins og fyrr segir kemur Anna Margrét til liðsins frá Keflavík.
Anna Margrét sem er 28 ára, hóf síðasta tímabil með Stjörnunni en spilaði einungis einn leik með þeim og ákvað að fara til Keflavíkur. Þar lék hún níu leiki í Landsbankadeildinni og skoraði tvö mörk.
„Anna Margrét er mjög jákvæður leikmaður og ég er mjög ánægður með að hún sé komin til liðsins. Hún styrkir liðið gríðarlega og ég er mjög spenntur fyrir henni. Hún vildi koma til Keflavíkur í fyrra og spila undir minni stjórn, en loks þegar hún kom til Keflavíkur var ég hættur þar. Hún ákvað því að koma til Hauka núna sem er mjög ánægður með,“ sagði Salih Heimir Porca.
Anna Margrét er eins og Linda Rós og Fjóla Dröfn fyrrum leikmaður Hauka en hún spilaði síðast með Haukum tímabilið 2003 þegar lið Hauka og Þróttar var sameiginlegt. Hún skipti síðan yfir í Stjörnuna og svo í Keflavík. Hún á að baki yfir 60 meistaraflokksleiki og hefur skorað 8 mörk.
Hún getur bæði spilað á miðjunni og í vörninni „Hún er mjög fjölhæfur leikmaður og getur bæði spilað sem miðjumaður og í vörninni. Hún lék til að mynda rosalega vel í vörninni hjá Keflavík seinni parts síðasta tímabils og ég heillaðist mikið á spilamennsku hennar þar,“ sagði Salih Heimir.
„Nú höfum við styrkt okkur með þremur mjög svo góðum leikmönnum og við ætlum að halda áfram. Við ætlum okkur upp og að gera Hauka að topp klúbbi í kvenna knattspyrnu hér á landi,“ sagði Salih Heimir þjálfari meistaraflokks kvenna en hann er í samningsviðræðum við fleiri leikmenn.
Við munum birta fréttir um nýja leikmenn hér á síðunni um leið og fréttir berast.