Actavis og Körfuknattleiksdeild Hauka endurnýja styrktarsamning

Guðbjörg og Samúel undirrita samningÍ dag var endurnýjaður samningur milli Actavís og Körfuknattleiksdeildar Hauka. Actavís hefur undanfarin 6 ár verið aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildarinnar.  Í kjölfar góðs árangurs Hauka á síðasta ári ákvað Actavís að styðja enn betur við það grósku mikla starfi sem unnið er innan Körfuknattleiksdeildar Hauka. Á síðasta keppnistímabili varð meistaraflokkur kvenna bikarmeistari og meistaraflokkur karla vann sig upp í efstu deild. Þá unnu yngri flokkar Hauka í körfubolta 5 íslands- og bikarmeistaratitla á liðnu keppnistímabili þannig að ljóst er að framtíðin er björt  hjá Haukum.

 

Guðbjörg Edda  Eggertsdóttir aðstoðarforstjóri Actavís og Samúel Guðmundsson formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka skrifuðu undir samninginn. Við það tækifæri kom fram að samningurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Hauka og stórt skref í þá átt sem stefnt er að meistaraflokkur karla verði einnig í allra fremstu röð eins og meistaraflokkur kvenna hefur verið mörg undanfain ár.

Samhliða voru staðfestir leikmannasamningar við 4 unga og efnilega leikmenn í meistaraflokki karla þá Örn Sigurðarson, Emil Barja, Hauk Óskarsson og Kristinn Marinósson.  Þessir leikmenn urðu allir Íslandsmeistarar síðast liðið vor og binda stuðningsmenn Hauka miklar vonir við að þessir leikmenn muni lyfta karlaliði Hauka upp í allra fremstu röð á næstu árum.

Einnig voru staðfestir leikmannasamningar við 4 unga og efnilega leikmenn í meistaraflokki kvenna þær Auði Ólafsdóttur, Dagbjörtu Samúelsdóttur,  Ínu Salome Sturludóttur og Ingu Sif Sigfúsdóttur. Þær eru allar margfaldir Íslands- og bikarmeistarar og urðu þær á síðasta ári tvöfaldir Íslandsmeistarar í unglinga- og stúlknaflokki auk bikarmeistartitils í stúlknaflokki.

Þá var einnig Ívar Ásgrímsson boðinn velkominn til starfa hjá Haukum en hann hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari yngri flokka í körfu . Ívar hefur mikla reynslu af þjálfun og mun hann auk þjálfunar á 4 flokkum sjá um íþróttaakademíuna í Flensborgarskóla.