Á morgun, laugardag kl.15.00 fer fram þriðji leikur Fram og Hauka í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta. Frammarar unnu sem kunnugt er fyrstu tvo leikina en báðir hafa þeir verið hnífjafnir og sér í lagi sá síðari sem lauk með sigri Fram eftir tvöfalda framlengingu. Óhætt er að segja að vafadómar hafi ekki fallið með Haukum í þeim leik en því ævintýri er nú lokið og strákarnir farnir að einbeita sér að næsta leik.
Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari sem segir okkur það að í hverjum leik sem eftir er í einvíginu geta þeir bláklæddu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn, Haukaliðið verður því einfaldlega að vinna þrjá leiki í röð ætli það sér að verða Íslandsmeistari. Það er nákvæmlega það sem strákarnir ætla sér að gera en til þess þurfa þeir góðan stuðning áhorfenda, því þeir eru eins og margoft hefur sannað gríðarlega mikilvægur þáttu fyrir leikmenn.
Allir Haukar! Á morgun er að duga eða drepast, fylkjum liði á Ásvelli á morgun, laugardag kl.15:00 og styðjum strákana til sigurs. Áfram Haukar!
Við minnum Hauka í horni á að hafa aðgönguskírteinin sín meðferðis á leikinn því færri munu eflaust komast að en vilja í þennan stórleik og þá er gott að geta sannað að maður sé Haukur í horni.