Hvað segir Árni Þór? Haukar – Akureyri á morgun

Á morgun, laugardag, spilar meistaraflokkur Hauka í karlaflokki gegn Akureyri í 2.umferð N1-deildar karla. Leikurinn hefst klukkan 16:00 en leikurinn verður spilaður á Ásvöllum.

Fyrr um daginn leikur meistaraflokkur kvenna gegn Gróttu í N1-deild kvenna klukkan 14:00 og Haukar U lýkur svo deginum þegar þeir spila gegn Gróttu í 1.deild karla klukkan 18:15.

Í liði Akureyrar leika tveir fyrrum leikmenn Hauka, bræðurnir Rúnar og Árni Þór Sigtryggssynir. Rúnar bæði leikur og þjálfar liðið en yngri bróðir hans, Árni er að spila sitt fyrsta tímabil með liðinu eftir að hafa verið eitt ár í atvinnumennsku á Spáni, en hann fór þaðan eftir að hafa leikið nokkur ár með Haukum.

Við fengum Árna Þór í stutt spjall og hér er afraksturinn af því.

Hvernig er að vera kominn heim til Íslands á ný og byrjaður að spila með Akureyri ?  „Það er bara mjög fínt. Mér finnst allt vera á uppleið hérna heima. Deildin er sterkari en oft áður og miðað við fyrstu umferðina þá hefur umgjörðin batnað mikið. Það er gott að vera kominn aftur norður. Þetta er mitt uppeldisfélag, þó það sé í breyttri mynd í dag. Það er einnig gaman að taka þátt í því að rífa handboltann á Akureyri upp aftur“

Akureyri byrjaði tímabilið á heimavelli gegn nýliðum FH, þeir voru með yfirtökin í leiknum þangað til um 5 mínútur voru eftir af leiknum og þá fór allt í baklás og FH – ingarnir gerðu sér lítið fyrirog sigruðu leikinn „Við fengum nokkur tækifæri til að gera út um þann leik en nýttum þau ekki. Við klúðruðum þessu sjálfir og misstum svo hausinn endanlega síðustu 2 mínúturnar og leyfðum þeim að raða á okkur mörkum. Svona gerist ekki aftur í vetur.“

En hvernig skyldi leikurinn við Hauka á laugardaginn leggjast í Árna, býst hann við að þetta verði eitthvað öðruvísi leikur fyrir hann en aðra leiki og hvernig skyldi stemmingin í herbúðum Akureyrar vera þessa dagana? „Stemmingin er mjög góð eins og alltaf. Við erum búnir að hreinsa hausinn eftir síðasta leik. Þetta verður vissulega aðeins öðruvísi leikur fyrir mig. Ég ber ennþá taugar til Hauka og kann vel við fólkið í félaginu og strákana í liðinu, en það gleymist á meðan leik stendur.“

Við spurðum Árna næst að því, hverjir möguleikar Akureyrar væru að sigra Hauka og hvað Akureyri þurfti að gera til að sigra „50/50. Þetta hafa verið hörkuleikir á milli þessara liða undanfarin ár og ég held að þessi leikur verði það líka. Við einbetum okkur fyrst og fremst að okkur sjálfum fyrir leikinn á laugardaginn. Ef við spilum okkar leik og náum því besta út úr hverjum og einum þá eru okkur allir vegir færir.“

En hvaða lið býst Árni Þór að verði í topp sætunum þegar upp er staðið ? „Ég held að deildin verði jöfn og spennandi í vetur. Haukar og Valur bera af á pappírunum en spárnar hafa nú ekki staðist undanfarin ár. Það munu vera lið sem koma á óvart og lið sem valda vonbrigðum, eins og alltaf. Ég held að Haukarnir fari langt í vetur og verði í toppbaráttunni á öllum vígstöðum.“

Við spurðum Árna svo að lokum hver framtíðarplön hans væru? „Klára að mennta mig og halda áfram að bæta mig sem handboltamaður. Á næstu árum stefni ég á að fara aftur í atvinnumennsku,“ sagði Árni Þór Sigtryggsson að lokum við Haukar.is