Einn sigur – eitt tap

Elías Már HalldórssonÍ gær fóru fram tveir leikir í handboltanum á Ásvöllum. Fyrri leikurinn var leikur meistaraflokks kvenna gegn liði Stjörnunnar og síðari leikurinn, sem einnig var gegn Stjörnunni, var leikur meistaraflokks karla. Liðin skiptu með sér sigrum í leikjunum tveimur.

Stjarnan skoraði fyrsta mark leiks stelpnanna en Haukastelpurnar komust í 2-1 og 3-2. Eftir það hafði Stjarnan yfirhöndina allan leikinn. Þær náðu mest 5 marka forskoti, 9-14 og 10-15 í fyrri hálfeiknum og leiddu í hálfleik 14-17. Í síðari hálfleik héldu Stjörnustelpur forystunni þar til í stöðunni 23-22 fyrir Hauka. Stjarnan var hins vegar fljót að snúa blaðinu við að nýju og sigraði að lokum með 29 mörkum gegn 26 Haukamörkum.

Markahæst í liði Hauka var Ramune Pekarskyte með 10 mörk og Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði 6. Hjá Stjörnunni var Alina Petratce markahæst með 8 mörk og Sólveig Lára Kjærnested skoraði 5.

Segja má að karlaleikurinn hafi algjörlega verið andstæðan við kvennaleikinn. Haukastrákarnir höfðu yfirhöndina allan tímann og komust mest í 5 marka forystu í fyrri hálfleik þegar þeir leiddu 15-10. Staðan í hálfleik var 15-10. Í síðari hálfleik hélt velgegni Haukastrákanna áfram og juku þeir forystuna smátt og smátt og fóru að lokum með sigur af hólmi með 28 mörkum gegn 21 Stjörnumarki.

Markahæstur í liði Hauka voru þeir Sigurbergur Sveinsson og Kári Kristján Kristjánsson með 6 mörk hvor. Hjá Stjörnunni var það Guðmundur Guðmundsson sem var markahæstur, einnig með 6 mörk og Björgvin Hólmgeirsson skoraði 5 mörk. 

Mynd: Elías Már Halldórsson í leiknum í gær. – Pétur Haraldsson