Enn og aftur mátti búast við hörkuleik þegar Haukar mættu Stjörnunni í 2. flokki að kvöldi 26. júlí. Sólin skein og völlurinn var í góðu ásigkomulagi. Fyrir leikinn voru Stjörnumenn aleinir á toppi B-deildarinnar en Haukar höfðu náð að laga stöðu sína aðeins fyrir leikinn með sigri í síðasta leik gegn Þór og jafntefli gegn HK, sem var og er í toppbaráttunni. Enda sannaðist það líka gegn Stjörnunni að Haukar geta vel spilað fótbolta og barist. Fyrir því fengu Stjörnumenn heldur betur að finna, því Haukar byrjuðu leikinn miklu betur og Guðbjörn náði að koma Haukamönnum í 1-0 eftir aðeins tíu mínútna leik eftir góða stungusendingu inn fyrir flata vörn Stjörnunnar. Haukar héldu áfram að sækja og komust í 2-0 eftir átján mínútur þegar Guðbjörn sendi glæsilega hælsendingu á Guðjón, sem komst inn fyrir vörnina og sendi boltann fram hjá markverðinum og í markið, 2-0. Haukar slökuðu þó ekki á klónni eftir markið heldur héldu áfram að sækja og fengu nokkur ágætis færi. T.a.m. fékk Jónas gott færi eftir innkast Þórhalls en skaut viðstöðulaust fram hjá markinu. Haukarnir voru frekar nær að bæta fleiri mörkum við heldur en Stjarnan næði að jafna. Staðan var þó óbreytt í hálfleik. 2-0.
Haukar voru ákveðnir að halda áfram sama tempói í síðari hálfleik og í þeim fyrri, því þótt staðan væri vænleg fyrir þá var reiknað með stjörnuvitlausum Stjörnumönnum í síðari hálfleik. Haukar ætluðu jafnframt að reyna að halda boltanum vel innan liðsins og alls ekki hleypa Stjörnumönnum inn í leikinn. Það blés þó ekki byrlega fyrir Stjörnumenn, því Guðjón kom Haukamönnum í vænlega stöðu, 3-0, með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu af 25-30 metra færi. Aukaspyrnan var aðeins vinstra megin en Guðjón hitti boltann eins og best verður á kosið og boltinn fór rakleiðis upp í samskeytin. Haukamenn voru þó hvergi hættir, því Guðbjörn skoraði sitt annað mark í leiknum þegar hann afgreiddi botlann fram hjá markverði Stjörnunnar eftir að hafa komist inn fyrir vörn þeirra. Alls ekki í fyrsta skipti sem Haukar náðu því í leiknum. Þótt að Haukar væru komnir í frekar vænlega stöðu, 4-0, voru þeir hvergi hættir enda var talað um í leikhléi að hleypa andstæðingnum ekki inn í leikinn. Smátt og smátt komust Stjörnumenn þó inn í leikinn og skoruðu laglegt mark úr aukaspyrnu. Markið kom þó alltof seint fyrir þá í þeirri tilraun að komast aftur inn í leikinn. Var þetta eiginlega eina almennilega færi Stjörnumanna í öllum leiknum. Segir það margt um leik Haukastráka í leiknum.
Það sem gerði útslagið í leiknum var það að Haukastrákar komu miklu ákveðnari til leiks en Stjörnumenn. Þeir æfðu vel og undirbúningur þeirra fyrir leikinn var góður en auk þess voru allir að spila vel, hvort sem það voru byrjunarmenn eða varamenn. Boltinn fékk að fljóta og menn voru baráttuglaðir og náðu að skapa sér fjölmörg tækifæri. Án efa langbesti leikur Hauka það sem af er sumrinu og vonandi er þetta það sem koma skal hjá Haukastrákum. Menn gengu glaðir af leikvelli og gátu farið með bros á vör í frí, enda Verslunarmannahelgin fram undan. Næsti leikur liðsins er gegn Fjölni nk. mánudag á Fjölnisvelli kl. 19.