2-6 sigur á Gróttu í Deildabikarkeppninni

Þriðji leikur Hauka í deildabikarkeppni KSÍ var leikinn í gær gegn Gróttu á Stjörnuvellinum í Garðabæ, við vægast sagt mjög leiðinlegar aðstæður. Frá fyrstu mínútu leiksins til hinnar síðustu lamdi rigningin duglega á andlitum leikmanna á meðan Kári sá til þess að handahófið hafði síst minni áhrif á leikinn en færni leikmannana til að leika knattspyrnu.

Daði Dervic stillti upp eftirfarandi liði:

Emir

Hermann – Daníel – Davíð E. – Hilmar T.

Hilmar G. – Kristján Ó. – Birgir – Betim

Hilmar E. – Arnar Steinn

Á bekknum sátu: Davíð J., Bjarki, Bergsteinn, Lárus og Andri. Óli Jón á við tognun í læra að stríða og Amir Mehicca (nýji markvörðurinn) er ekki kominn með leikheimild. Þá boðaði Pétur Örn forföll á síðustu stundu vegna veikinda.

Það var ljóst frá byrjun að erfitt yrði fyrir bæði lið að spila áferðafallega knattspyrnu. Völlurinn var mjög blautur og sleipur sem gerði mönnum erfitt við móttökur og sendingar á knettinum, auk þess sem strekkingshliðarvindur blés allan leikinn. Eftir stirðbusalegar fyrstu mínútur fóru Haukarnir smátt að finna taktinn og byrjuðu að herja á mark Gróttu. Kantarnir, með Hilmar Geir og Betim í miklu stuðí í fyrri hálfleik, voru nýttir vel en erfiðlegra reyndist að stýra skotunum á markið. Fyrsta skot Hauka sem hitti markið endaði í netinu og þar var að verki Arnar Steinn á 17. mínútu, eftir sendingu frá Hilmari E.

Á 23. mínútu gerði Hilmar Trausti heiðarlega tilraun til að taka afturábakheljarstökk á miðjum vellinum áður en hann tæki við sendingu frá Davíði E. út á vinstri kantinn. Hilmari mistókst æfingin hrapalega, féll beint á rassinn og þurfti að horfði á eftir sendingunni fara út fyrir hliðarlínuna, en uppskar í staðinn töluverða undrun þeirra sem horfðu á.

Á 28. mínútu var komið að Birgi að setja boltann í netið, eftir frábæran sprett Hilmars Geirs upp hægri kantinn og einfaldan samleik Hilmars E. og Arnars inn í teig sem endaði með skoti Birgis upp í þaknetið. Sex mínútum síðar var Arnar aftur á ferðinni þegar hann hirti frákastið eftir laflausa aukaspyrnu Betims að markinu. Markvörður Gróttu gerði sig sekan um slæm mistök og Arnar, líkt og alvöru senter sæmir, var mættur fyrstur í markteiginn og gat á einfaldan hátt potaði inn boltanum á meðan varnarmenn Gróttu horfðu á.

Haukar voru töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og byggðust þá sóknartilburðir Gróttu helst á löngum sendingum fram á við sem enduðu aftur fyrir endalínu eða í innkasti. Við betri aðstæður, og pottþétt gegn sterkari mótherjum, hefði Haukum verið margrefsað fyrir þann aragrúa af tæknilegu mistökum sem þeir gerðu sig seka um í vörninni og á miðjunni. Grótta náði ekki að nýta sér þau í fyrri hálfleik en það átti eftir að breytast í þeim seinni.

Í hálfleik skipti Lárus við Hermann í hægri bakvörðinn og Andri kom inn fyrir Arnar í sókninni. Hinir varamennirnir fengu allir að spreyta sig og komu inn á þegar leið á seinni hálfleik.

Segja má að leikur Hauka hafi nánast hrunið strax eftir að dómarinn flautaði til seinni hálfleiks. Leikmenn Hauka virtust hafa hugann meira við kakóbollann sem þeir ætluðu að fá sér á eftir leik og einungis liðu þrjár mínútur af hálfleiknum þar til Grótta hafði minnkað muninn í 3-1 eftir klaufagang í vörninni eftir hornspyrnu, sem endaði með sjálfsmarki eins Haukamannsins.

Í framhaldinu gekk Haukum einstaklega illa að láta boltann ganga sín á milli sem og að halda liðinu þétt saman. Mikið teygðist á liðinu í allar áttir, sem gaf sóknarmönnum Gróttu mikið pláss og tíma til að athafna sig í skyndisóknum sínum eftir að Haukarnir höfðu misst boltann. Hilmar E. náði að laga stöðuna aðeins fyrir Hauka á 65. mínútu þegar hann skoraði eftir hornspyrnu.

Gróttumenn voru þó fljótir að svara og minnkuðu muninn aftur í 4-2 eftir ágæta sókn. Það sem eftir leið leiks var mest um skyndisóknir á báða bóga þar sem hvorugu liði tókst að halda almennilegu skipulagi á sínum leik. Haukarnir óðu hreinlega í dauðafærum og virtist fyrirmunað að skora þar til á 87. og 89. mínútu þegar Hilmar E. fullkomnaði þrennuna með tveimur mörkum.

Alls áttu Haukar 28 skot að marki Gróttu og þar af voru 17 skot sem hittu á markið. Öllu betri nýting Gróttu sem átti einungis 3 skot sem hittu mark Hauka, og 3 sem fóru fram hjá, en tókst samt að skora 2 mörk.

Segja má að leikurinn hafi verið tvískiptur hjá Haukunum, þar sem menn reyndu sitt besta í fyrri hálfleik til að spila knattspyrnu við mjög erfiðar aðstæður á meðan áhugaleysi, einbeitingarleysi og kraftleysi einkenndi allan leik okkar manna í seinni hálfleik.

Á fimmtudaginn, Sumardaginn fyrsta, klukkan 12:00 í Fífunni verður hreinn úrslitaleikur við Selfoss um fyrsta sætið í riðlinum og þar með sæti í undanúrslitum B-deildar Deildabikarkeppninnar. við hvetjum alla til að mæta og njóta fyrsta degi sumars innanhúss í logninu og hitanum í Fífunni.