Haukamenn gerðu sér lítið fyrir og sendu 6 sveitir til leiks á Íslandsmót skákfélaga, sem hófst um síðustu helgi. Þennan fjölda má að mestu leyti þakka mikilli virkni meðlima og góðs barnastarfs.
A-liðið teflir nú í fyrsta skipti í 1.deild, en liðið vann yfirburðasigur í 2.deildinni í vor. B-liðið, sem sigraði 4.deildina í vor, teflir nú í 3.deild og svo tefla C-, D-, E-, og F-liðin í fjórðu deild. F-liðið er svokölluð krakkasveit, en hin þrjú eru skipuð virkum skákmönnum sem hafa verið að mæta reglulega á æfingar.
Fyrir mót var vonast eftir því að A-liðið myndi blanda sér í titilbaráttuna. Þeir Ehlvest, Kveinys, Malisauskas, og góðvinur okkar Björn Ahlander voru kallaðir til, auk þess sem liðið hefur verið styrkt af sterkum íslenskum skákmönnum. Þ.á.m. Elvari Guðmundssyni. Í 1.umferð mættum við hinni firnasterku A-sveit Taflfélags Reykjavíkur og þurftum við að lúta í gras 2-6. Úrslitin voru okkur mikil vonbrigði og gerðu hugsanlega út um sigurvonir okkar í vor. Eftir 4 umferðir af 7 er staðan eftirfarandi:
1.TR-A 24,5
2.TV-A 22,5
3.Haukar-A 19,5
4.Hellir-A 17,5
5.SA-A 15
6.TG-A 11,5
7.Hellir-B 10
8.Selfoss-A 7,5
Fimm vinningar í efsta sætið og ljóst að sigur í deildinni er ekki í okkar höndum. TR og TV eiga reyndar eftir að mætast innbyrðis, en hlutirnir þurfa heldur betur að ganga okkur í hag ef við eigum að ná að skáka þessum félögum. Við erum þó í ágætri stöðu hvað varðar 3.sætið og ættum að geta haldið því.
Fyrir mót voru menn á því að baráttan um sigur í 3.deildinni myndi standa á milli Hauka-B og Fjölnis-A. Við vorum nokkuð bjartsýnir á góðan árangur, en á föstudeginum urðum við fyrir áfalli þegar 1.borðsmaðurinn Óli B., sem hugðist tefla allar 4 skákirnar, tilkynnti forföll í þremur þeirra. Liðið veiktist töluvert við þetta og þurftum við allir að færast upp um eitt borð. Engu að síður unnum við góða sigra á Dalvíkingum (5,5-0,5) og Hreyfli/TS (5-1), en að sama skapi var frammistaðan slök gegn SA-C (2,5-3,5) og Fjölni-A (1-5). Þegar þremur umferðum er ólokið erum við 3 vinningum á eftir Fjölni. Ætlum við okkur að eiga möguleika á að brúa það bil þarf allt að ganga upp í seinni hlutanum (þyrftum helst að vinna hverja einustu skák!). Sem betur fer fara tvö lið upp, þannig að ekki er öll von úti enn. Staðan í 3.deildinni:
1.Fjölnir-A 17
2.Haukar-B 14
3.SR-A 12,5
4.SA-C 11,5
5.Dalvík 11
6.TS/Hreyfill 10,5
7.TR-C 10
8.Austurland 9,5
Vitað var að toppbaráttan í 4.deildinni yrði geysilega hörð. Taflfélag Vestmannaeyja er með mjög jafnt og gott B-lið, þar sem +2000 stigamannanna er ekki saknað. Kátu Biskuparnir voru grand á því og mættu með tékkneska stórmeistarann Thomas Oral í broddi fylkingar, auk þriggja annarra erlendra skákmanna (3 í A-liðinu og 1 í B-liðinu!). Við erum með nokkuð gott C-lið. Kannski ekki það stigahæsta, en lið sem er í toppæfingu. Við náðum að sigra Kátu Biskupana 3,5-2,5 en eigum eftir að mæta TV. Þegar 3 umferðir eru eftir erum við í 2.sæti á eftir TV og eigum ágæta möguleika á því að komast upp.
D-sveitin okkar er í 10.sæti með 14 vinninga og E-sveitin í 21.sæti með 10 vinninga. Báðar þessar sveitir samanstanda af virkum og skemmtilegum skákmönnum sem mæta vel á þriðjudagsæfingarnar.
F-liðið (krakkasveitin) er svo í 27. sæti með 6 vinninga.
Staðan efstu liða og Haukamanna í 4.deild:
1.TV-B 20,5
2.Haukar-C 17,5
3-5.Kátu Biskuparnir 16
3-5.Skákdeild Guttorms Tudda 16
3-5.TR-D 16
10-11.Haukar-D 14
21.Haukar-E 10
27-29.Haukar-F 6