Skákin norðan heiða

Undirritaður tekur nú þátt í Haustmóti Skákfélags Akureyrar. tefldar eru níu umferðir í mótinu. Tíu einstaklingar eru skráðir til leiks og fær maður þvi að tefla við alla í mótinu. Nú þegar þessi orð eru skrifuð eru þrjár umferðir búnar í mótinu. Ég kom inn í mótið í annari umferð og á því eftir að tefla fyrstu umferðina. Í annari umferð stýrði ég hvítu mönnunum gegn Þóri Valtýssyni (2065). Upp kom ekta Slavi, staða sem undirritaður þekkir út og inn. Ég var með fína stöðu á borðinu, þegar ég tek upp á því að reyna að þvinga drottningaruppskipti. Sú ákvörðun mín var hárrétt og tókst mér vel upp. Þegar steindautt jafntefli var á borðinu lék ég gjörsamlega heimskasta leiknum í stöðunni og missti um leið a og b peðið og eftirleikurinn því auðveldur fyrir Þór.

Í dag tefldi ég síðan með svörtu gegn Alexander Arnari Þórissyni. Skoskur leikur hefur sjaldan vafist fyrir mér og var ég búinn að þvinga hann allan inn fyrir þriðju reitarröð í 18. leik. svo vann ég skiptamun og átti ekki í erfiðleikum með að klára þá skák.

Það er svolítið skrýtið að eftir nokkura mánaða hlé á skák, fer maður strax í að tefla kappskákir. Oftast hefur venjan verið að tefla hraðskákir og koma sér þannig í „form“ fyrir kappskákirnar. Ég er á því að þetta sé fínt fyrir skákman eins og mig, sem get ekki nokkurn skapaðan hlut í hraðskákum. Skákin mín gegn Þóri sem er tæplega 2100 stiga skákmaður, var mjög vel tefld af minni hálfu. Skákin kemur hér síðar, með skýringum og góðum myndum.

Sveinn Arnarsson þakkar fyrir sig og hlakkar til að sjá ykkur næstu helgi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Sveinn Arnarsson