Góður árangur í atskákinni !

Fjórir vaskir Haukamenn tóku þátt í Íslandsmótinu í atskák, sem fram fór um síðustu helgi. Þátttakendur voru 48 og voru tefldar 2 atskákir við sama andstæðing, útsláttarfyrirkomulag. Ef jafnt var eftir atskákirnar var gripið til bráðabana, þar sem umhugsunartíminn var styttur niður í 10 mín. Haukamenn stóðu sig með mikilli prýði á mótinu og þurfti í öllum tilfellum stórmeistara til að slá okkur út.

Halldór Brynjar Halldórsson og Snorri G. Bergsson stóðu sig best okkar manna og komust í 8 manna úrslit. Árangur Halldórs vakti þó mun meiri athygli. Hann lagði Jökul Jóhannsson af velli 2-0 í 1.umferð. Í þeirri annarri var alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson sleginn út 2-1 í bráðabana, eftir að Halldór hafði tapað fyrstu skákinni. Í 3.umferð lagði Halldór svo af velli stórmeistarann og goðsögnina Friðrik Ólafsson, einnig eftir bráðabana. Í þetta sinn enduðu báðar atskákirnar með jafntefli, en Halldór vann sannfærandi sigur í hraðskákinni. Í 8 manna úrslitum mætti Halldór danska/”íslenska” stórmeistaranum Henrik Danielsen. Halldór hélt uppteknum hætti og sigraði í fyrri atskákinni. Í þeirri seinni varð hann svo fyrir því óláni að leika af sér manni í tímahraki, í stöðu þar sem hann átti mjög góða jafnteflismöguleika. Henrik náði svo að knýja fram sigur í bráðabanaskákinni.

Snorri G. Bergsson sigraði hinn efnilega Gylfa Davíðsson 2-0 í 1.umferð og lagði svo góðkunningja okkar, Jóhann H. Ragnarsson, með sama mun í þeirri annarri. Í 3.umferð mætti hann svo alþjóðlega meistaranum og landsliðsmanninum Arnari Gunnarssyni. Snorri gerði sér lítið fyrir og lagði kappann af velli 1,5 – 0,5, nokkuð örugglega að eigin sögn. Í 8 manna úrslitum tefldi hann svo við Hannes “Robot” Stefánsson og þurfti að játa sig sigraðan 0,5 – 1,5.

Heimir Ásgeirsson byrjaði á því að sigra Mikael Luis Gunnlaugsson 2-0 í fyrstu umferð og sló svo Pál Agnar Þórarinsson verðskuldað út í þeirri annarri. Báðar voru þetta hörku skákir, en Heimir var sterkari á endasprettinum og sigraði 2-0. í 16 manna úrslitum þurfti Heimir svo að játa sig sigraðan þegar hann tapaði 0-2 gegn Helga Áss Grétarssyni.

Ingi Tandri Traustason sýndi mikinn karakter þegar hann sigraði Halldór Pálsson (1820) í bráðabana eftir að hafa lent undir. Allar skákirnar þrjár unnust á svart. Í 2.umferð datt Ingi svo heldur betur í lukkupottinn þegar hann dróst gegn Friðriki Ólafssyni, en það verða að teljast forréttindi að fá að tefla við hann! Það mátti glöggt sjá á fyrri atskákinni að Ingi bar mikla virðingu fyrir andstæðingi sínum og fékk hann snemma mjög erfiða stöðu, sem ekki náðist að bjarga. Seinni skákina tefldi Ingi miklu betur og lét eina Íslendinginn, sem unnið hefur ríkjandi heimsmeistara, virkilega hafa fyrir hlutunum. Þrátt fyrir að hafa betri stöðu átti Friðrik í hinum mestu erfiðleikum með að brjóta varnir Inga á bak aftur. Undir lokin var stórmeistarinn kominn í bullandi tímahrak og sá sér þann kost vænstan að bjóða okkar manni jafntefli. Ingi þáði jafnteflisboðið og getur verið afar stoltur af frammistöðunni.

Myndin er tekin við upphaf seinni atskákarinnar, þeirrar sem lauk með jafntefli.