Viðtal við Tryggva Haralds.

Tryggvi Haraldsson gekk til liðs við Hauka í apríl frá danska liðinu Ribe. Við fengum Tryggva í stutt viðtal. Verði ykkur að góðu.
—————————————————————————————

Tryggvi nú ert kominn heim, hvernig lýst þér á það ?

 Mér líst gríðarlega vel á það. Maður er óðum að komast inn í samfélagið aftur. Hér líður manni best og hér á maður heima.

 
Hvað kom til að þú ákvaðst að koma aftur til Íslands ?

 Ég fór vandlega yfir stöðuna og ég hafði hreinlega ekki áhuga á að vera lengur úti. Mér fannst vera kominn tími á að koma mér í vinnu þar sem ég gat nýtt það nám sem ég á að baki.  Mér fannst lífið úti hálf tilbreytingarsnautt þótt það hafi verið gaman á margan hátt. Maður spilaði bara handbolta og lærði í fjarnámi frá Íslandi. Það vantaði ákveðið félagsnet og verkefni þess á milli og því ákvað ég að snúa heim.

 Fékkstu tilboð frá öðrum liðum en Haukum ? – Og hver var ástæðan að þú valdir Hauka ?

 Já, eitthvað en engin tilboð beint. Ástæðan fyrir því að ég valdi Hauka er einfaldlega vegna þess handboltaumhverfs og hefðar sem ríkir á Ásvöllum. Klúbburinn hugsar vel um leikmenn sína sem skilar sér í gríðarlegum metnaði innan leikmannahópsins. Þarna er toppþjálfarar og breiður hópur. Svona þættir vega gríðarlega þungt og eru aðalástæða þess að ég fór í Hauka.

 Telur þú vera mikinn mun á íslensku og dönsku deildinni ? – Ef svo er, hver er þá aðal munurinn ?

 Já munurinn er töluverður en fer vonandi minnkandi. Danska efsta deildin er líklegast sú þriðja eða fjórða besta í heimi og hefur styrkst þó nokkuð á síðustu árum. Deildirnar eru líkar að því leiti að þær einkennast af gríðarlegum hraða. Þó liggur stærsti munurinn í umgjörð og umfjöllun um deildina. Í Danmörku sér maður leiki í hverri viku og handbolta eru gerð gríðarlega góð skil, eitthvað sem verður að bylta hér á Íslandi.

 Gætu Haukar gert eitthverjar rósir t.d. í efstu deild í Danmörku ?

 Já það er engin spurning. Eins og metnaðurinn og getan er í liðinu tel ég engan vafa leika á því að Haukar myndu plumma sig vel í dönsku deildinni.

 Hvernig lýst þér á Haukaliðið og Aron Kristjáns. ?

 Mér líst mjög vel á bæði liðið og þjálfarann. Það er gríðarleg fagmennska yfir öllu, og lið og þjálfari virðast vera á sömu bylgjulengd sem er mjög mikilvægt. Maður setur auðvitað spurningamerki við þessa eyjaklíku en þeim venst maður eins og veðrinu.

Nú hafa 4 leikmenn komið í Hauka úr atvinnumennskunni, munu Haukar ekki bara einoka titlana á næsta ári hér innan lands ?

 Það er að sjálfsögðu stefnan og yrði óskastaða. Það er hins vegar staðreynd að liðin í deildinni eru gríðarlega jöfn og nú er komin inn úrslitakeppni svo það verður ekki auðvelt verkefni.

Við þökkum Tryggva kærlega fyrir viðtalið og bjóðum hann velkominn í Hauka fjölskylduna. Á næstu dögum verður áframhald á viðtölum við "nýja" leikmenn Hauka.

    – Arnar Daði Arnarsson skrifar.